Telur tollhúsið geta nýst sem höfuðstöðvar

22.07.2015 - 17:27
Mynd með færslu
 Mynd: RUV
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, segir eitt og annað athugavert við áform Landsbankans um að reisa nýjar höfuðstöðvar fyrir 7 milljarða og telur að ríkisbankinn ætti að vera leiðandi í því að bæta kjör viðskiptavina bankakerfisins. Tollhúsið gæti nýst bankanum undir nýjar höfuðstöðvar

Fyrirhugaðar höfuðstöðvar Landsbankans hafa mætt töluverðri andstöðu - bæjarráð Vestmannaeyja vill að hluthafafundur verði kallaður saman til að fara yfir málið og bæjarstjórinn í Kópavogi vill fá höfuðstöðvarnar þangað.

Þá hafa fjórir þingmenn stjórnarflokkanna - Elín Hirst, Guðlaugur Þór Þórðarson, Frosti Sigurjónsson og Vigdís Hauksdóttir - öll gagnrýnt þessa framkvæmd. Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans, hefur sagt að með þessum höfuðstöðvum geti bankinn sparað 700 milljónir á ári og borgað þannig upp framkvæmdina á tíu árum.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, segir eitt og annað athugavert við þessi áform bankans. Í fyrsta lagi séu það skipulagsmálin. Gert sé ráð fyrir allt of miklu byggingarmagni milli Hörpu og gamla bæjarins.

Sigmundur gagnrýnir einnig forgangsröðun ríkisbankans sem hann telur að ætti að vera leiðandi í því að bæta kjör viðskiptavina bankakerfisins. „Og í þriðja lagi þá finnst mér það undarlegt ef banki sem er í almannaeigu, ætlar að fara gegn því sem virðist vera augljós vilji eigendanna - almennings og fulltrúa hans.“

Sigmundur Davíð segir fjölmarga aðra staði sem Landsbankinn gæti nýtt undir höfuðstöðvar eða jafnvel annað húsnæði sem þegar sé til staðar. „Menn hafa til að mynda nefnt tollhúsið sem ég held að gæti nýst bankanum mjög vel,“ en nánar verður rætt við Sigmund í kvöldfréttum Sjónvarps klukkan 19.

Jón Gunnarsson, formaður atvinnuveganefndar, sagði í samtali við fréttastofu nú síðdegis að höfuðstöðvar Landsbankans væru algjörlega ótímabærar við núverandi aðstæður. Atvinnulífið bæri ábyrgð ásamt stjórnvöldum á því að skapa ekki ofþensluástand. Jóni finnst rétt að framkvæmdirnar bíði í 3 til 5 ár. „Sameiginlegt átak okkar allra, bæði hins opinbera og almenna markaðarins hlýtur að vera að jafna álag og forðast allar sveiflur.“

 

johannav's picture
Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir
Fréttastofa RÚV
anna.kristin's picture
Anna Kristín Pálsdóttir
Fréttastofa RÚV
freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi