Telur þörf á vitundarvakningu um íslenskt mál

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Telur þörf á vitundarvakningu um íslenskt mál

26.12.2018 - 14:30

Höfundar

Vitundarvakningar er þörf ef íslenskan á áfram að vera notuð á öllum sviðum þjóðfélagsins. Þetta segir Eiríkur Rögnvaldsson, sem hlaut verðlaun Jónasar Hallgrímssonar á degi íslenskrar tungu. Þá ýti samræmd próf í íslensku undir mismunun og drepi áhuga nemenda á málinu, eins og prófin eru framkvæmd í dag.

Sofandi að feigðarósi

Í ítarlegu viðtali á Rás eitt í morgun segir Eiríkur að snjalltækjabyltingin hafi breytt meiru fyrir íslenskt mál en margan kunni að gruna. „Það er ekkert sjálfgefið að 350 þúsund manna þjóð eigi sér tungumál sem er notað á öllum sviðum. Og það verður ekki þannig ef við fljótum sofandi að feigðarósi, eins og mér finnst við hafa verið að gera,“ segir Eiríkur. 

Til lítils ef áhuginn er ekki til staðar

Mikilvægt sé að greiða leið íslenskunnar í stafrænum heimi ef fólk eigi að geta notað hana á öllum sviðum. Hins vegar sé það til lítils ef enginn hafi áhuga á að nota málið. „Ef okkur tekst að sannfæra börnin og unglingana um það að það sé mikilvægt og gagnlegt og skemmtilegt að nota íslensku á öllum sviðum og þau ætla síðan að fara að gera það og reka sig á vegg, að það er ekki hægt að nota íslensku við tilteknar aðstæður, þá náttúrulega verður það til þess að draga úr áhuganum,“ segir hann. „Þannig að þetta þarf að fylgjast að, annars vegar áhuginn á að nota málið og hins vegar möguleikinn á að gera það.“

Samræmd próf mismuni eftir málkennd

Eiríkur segir líka að í samræmdum prófum sem lögð eru fyrir grunnskólanema sé of mikil áhersla lögð á rétt mál og rangt. „Það er verið að prófa þau í atriðum sem samræmast málkennd og máluppeldi sumra þeirra en ekki annarra,“ segir hann. „Mér finnst það mismunun á sama hátt og mismunun eftir trú eða kynþætti eða einhverju slíku, mismunun eftir málkennd. Svo er þetta vont gagnvart íslenskunni líka vegna þess að þetta kemur óorði í íslenskuna sem námsgrein.“

Tengdar fréttir

Íslenskt mál

„Skítt veri með einhverjar smávillur“

Menningarefni

Snjalltækin víki fyrir samtölum við börnin

Íslenskt mál

Eiríkur Rögnvaldsson fær verðlaun Jónasar