Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Telur það jákvætt að kjósendur VG séu kröfuharðir

05.01.2020 - 16:17
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
„Ég er bara vön því að kjósendur Vinstri grænna eru kröfuharðir og ég tala ekki um það sem eitthvað ósætti. Ég lít bara svo á að við erum með kröfuharða kjósendur og mér finnst það gott því það brýnir mann áfram í því sem maður er að gera,“ segir Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna. Hún segist sannfærð um það að ríkisstjórnin sé að gera meira en fyrri ríkisstjórnir í loftslagsmálum.

„Ég veit það bara sem stjórnmálamaður að maður getur alltaf gert betur en  maður er að gera. Það er bara eðli stjórnmálanna. Það er alltaf verk óunnið,“ segir hún. 

Katrín segist það taka tíma fyrir aðgerðir til að skila sér. Ríkisstjórnin hafi sett fyrstu fjármögnuðu aðgerðaáætlunina í loftslagsmálum. Orkuskipti í samgöngum og kolefnisbinding hafi þar verið lykilmál.

„Það kemur ný og uppfærð aðgerðaáætlun á þessu nýja ári þar sem áfram verður haldið með aðgerðir. Við erum að gera róttækar breytingar í skattkerfinu hvað varðar græna skatta og grænar ívilnanir til þess að flýta þessum breytingum. Við erum að sjá fram á það að árið 2030 munum við binda 50 prósentum meira af kolefni bara með þeim aðgerðum sem nú þegar eru farnar af stað svo dæmi sé tekið.“

Katrín var í Silfrinu spurð út í samstarfið innan Vinstri grænna og úrsögn Andrésar Inga Jónssonar úr þingflokknum í lok nóvember. Hún segist ósammála Andrési og segir samstarfið innan þingflokksins hafa verið gott og hennar upplifun sé að það hafi batnað eftir því sem liðið hefur á kjörtímabilið.

 „Ég veit það alveg að sumum finnst erfitt að við séum að vinna með tilteknum flokkum eða tilteknu fólki.  Ég er bara ekki þeirrar gerðar. Ég horfi bara á þann árangur sem stjórnmálaþátttakan getur skilað.“

Hún nálgist ekki viðfangsefni stjórnmálanna með eftirsjá yfir einhverju sem ekki gerðist heldur frekar til þess hvaða árangur náist. „Til þess er ég í stjórnmálum. Ekki til þess endilega að skapa einhverja sérstaka ímynd af sjálfri mér. Mér er bara nokkurn veginn sama um það. Heldur snýst þetta um þann árangur sem við erum að skila fyrir fólkið í landinu.“

 

asrunbi's picture
Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV