Telur sig ekki þurfa að fara í leyfi

03.12.2018 - 19:49
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins og einn þeirra sem tók þátt í samræðum á Klaustrinu þann 20. nóvember, sagði í kvöldfréttum RÚV að hann teldi sig ekki þurfa að fara í leyfi á meðan málið sé skoðað. Ef gæta eigi samræmis þyrftu þá svo margir þingmenn að fara í leyfi að þingið yrði óstarfhæft. Hann sagðist að sjálfsögðu sjá hrikalega eftir að hafa tekið þátt í samtalinu en það alvarlegasta væri að hafa tekið þátt í slíku í öll þessi ár.

Nú hefur forseti Alþingis beðið þjóðina afsökunar vegna ummæla sem féllu á Klausturbar. Er ekki eðlilegt að þið biðjið líka þjóðina afsökunar?

„Við höfum beðið afsökunar nú þegar. En það sem er auðvitað kannski alsorglegast í þessu máli er að það sé verið að draga inn í þetta eitthvað fólk  úti í bæ án þess að í því sé nokkurt sérstakt fréttagildi. Fólk sem menn hafa verið að ræða um á mjög óvarfærinn hátt og á þann hátt sem því miður alltof oft kannski tíðkast þegar menn telja að þeir séu bara að ræða við vini sína og enginn heyrir til."

Eruð þið ekki að afvegaleiða umræðuna með því að benda á þetta?

„Nei."

Draga athyglina frá kannski alvarleika málsins?

„Ja, alvarleiki málsins er sá að menn skuli í stjórnmálunum, ja frá því ég byrjaði, hafa, og ég undanskil mig svo sannarlega ekki, setið undir svona umræðum, hlustað á þær, ýtt undir þær."

Þarftu þá ekki að nefna hvaða ummæli þú ert að tala um? Nafngreina fólkið?

„Jú, ég velti því fyrir mér núna, ég verð að segja alveg eins og er. Er það núna orðin skylda mín að rekja það hvað tilteknir þingmenn hafa sagt um aðra þingmenn, sem sumt hvert, því miður, er jafnvel töluvert grófara en það sem við höfum heyrt á þessum upptökum. Er staðan orðin sú að okkur ber núna skylda til þess að rekja það sem við höfum heyrt menn segja, hversu óviðeigandi sem það kann að vera?"

Þingið yrði óstarfhæft

Réttlætir það þessi ummæli sem þið viðhöfðuð, þið sexmenningarnir?

„Nei, að sjálfsögðu ekki. Ekki á nokkurn skapaðan hátt. Er ég er í rauninni að segja að sé ennþá verra. Af því að maður skammast sín ekki bara fyrir þetta, maður skammast sín fyrir að hafa öll þessi ár tekið þátt í þessu."

Nú er búið að reka tvo þingmennina úr flokki fólksins, tveir liðsmenn þínir eru farnir í leyfi ótímabundið Er ekki eðlilegt að þú og Anna Kolbrún farið líka í leyfi á meðan þetta mál er skoðað?

„Nei, eins og ég segi, ástæðan fyrir því að mér þykir það ekki eðlilegt er að við hljótum að vilja gæta einhvers samræmis. Og ef að sú er raunin, þá eru svo margir þingmenn sem þyrftu að fara í leyfi að ég held að þingið væri óstarfhæft. Það breytir ekki því að að sjálfsögðu átti ég ekki, svo ég ítreki það, og ekki Anna Kolbrún heldur, að sitja þarna og fylgjast með og taka þátt í svona löguðu."

Eins og lesið hafi verið upp úr dagbókinni þinni

En sérðu eftir því að hafa tekið þátt í þessu samtali?

„Að sjálfsögðu. Ég hef lent í mörgu erfiðu í pólitíkinni frá því ég byrjaði, í þessi tíu ár, en engu eins og þessu. Engu svona persónulegu. Ég veit ekki hvort menn geta sett sig í þessi spor en þetta er eins og það sé brotist inn til þín og lesið upp úr dagbókinni þinni eða eiginlega verra því þetta eru illa ígrunduð ummæli."

En samtalið fór fram og þið sex tókuð þátt í þessu samtali. Og þú sérð eftir því?

„Ég sé að sjálfsögðu alveg hrikalega eftir því. En ég sé eftir svo mörgum öðrum samtölum líka."

Ýmsir hafa sagt enn ljótari hluti

Hvernig heldurðu að þú getir farið að vinna með þessu fólki sem þið voruð að tala um þarna?

„Ég held nú að reynslan af pólitíkinni sé sú að maður þurfi að vinna með fólki sem maður hefur heyrt segja alveg ótrúlega ljóta hluti um sig. Og ýmsir samstarfsmenn mínir hér hafa sagt ennþá ljótari hluti um mig opinberlega heldur en ég sagði um nokkurn mann í þessum samtölum. Svoleiðis að þetta er eitthvað sem maður þarf bara að búa við í þessu starfi."