Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Telur sig afhjúpa Lagarfljótsorminn

14.02.2012 - 13:45
Mynd með færslu
 Mynd:
Discovery News telur sig hafa afhjúpað Lagarfljótsorminn, eða það sem sést á myndbandi sem farið hefur um heimsbyggðina sem eldur í sinu.

Í frétt á vef Discovery News segir að nokkuð ljóst sé að þetta sé ekki slanga og er það rökstutt með þeim orðum að umhverfið sé of kalt. Slöngur geti ekki stjórnað hita sínum og hafist því við þar sem hitastigið er hærra en það er á Austurlandi að vetri. Síðasti staðurinn þar sem slanga væri líklega til að halda sig sé jökulá.

Þá er vísað í athugun Miisa McKeown á myndbandinu. Hún býr í Finnlandi og segir það hafa vakið athygli sína að sjá fyrirbærið innan um klakahrönglið. Hún segir að eftir að hafa skoðað myndbandið vandlega og tekið stillur úr því virðist sem fyrirbærið sé fast á einum stað. Hreyfingin sé því til komin vegna strauma en ekki vegna þess að „Lagarfljótsormurinn“ hreyfi sig sjálfur. 

Fréttamaður Discovery News dregur ályktanir af þessu, og ummælum Hjartar E. Kjerúlf, sem tók myndbandið, í viðtali við Bylgjuna. Þar sagðist hann fyrst hafa tekið eftir fyrirbærinu þegar hann var að drekka kaffi og tekið mynd af því nokkrum mínútum síðar, á sama stað. Því sé líklegast að „Lagarfljótsormurinn“ hafi ekki hreyft sig og sé ekki dulúðug skepna heldur einfaldlega netadræsa.