Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Telur samræmd próf draga úr áhuga á íslensku

07.03.2018 - 16:48
Mynd með færslu
 Mynd: Óðinn Jónsson - Morgunvaktin
Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor í íslensku við Háskóla Íslands, telur að niðurstaða samræmdra prófa í íslensku segi ekkert um málnotkun og málkunnáttu nemenda. Hins vegar séu þau sérlega vel til þess fallin að draga úr áhuga þeirra á móðurmálinu. Þetta segir hann í færslu á Facebook-síðu sinni.

Til stóð að nemendur í 9. bekkjum grunnskóla tækju samræmt próf í íslensku í morgun en vegna tæknilegra vandamála var fjöldi nemenda sem ekki gat tekið prófið. Á vef Menntamálastofnunar er æfingapróf og las Eiríkur yfir það. Í færslunni segir hann að í prófinu séu 19 spurningar sem eigi að falla undir málnotkun. Tíu spurningar séu um málvillur og gott og vont mál. Ein spurning sé um stóran staf og lítinn sem hann segir að falli ekki undir málnotkun. Aðrar spurningar snúist aðallega um orðflokkagreiningu og málshætti.

„Ég fer ekki ofan af því að próf af þessu tagi segja nákvæmlega ekkert um raunverulega málnotkun og málkunnáttu nemenda. Þau eru hins vegar sérlega vel til þess fallin að draga úr áhuga nemenda á móðurmálinu. Það er varla tilgangurinn, en það er ofvaxið mínum skilningi hvað Menntamálastofnun gengur til með því að leggja svona próf fyrir nemendur ár eftir ár,“ segir Eiríkur í færslunni.