Telur lagabreytingu um tryggingar óskiljanlega

08.01.2020 - 16:15
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot úr myndbandi EBU
Sú skylda eigenda vélsleða, fjórhjóla og torfærumótorhjóla að tryggja ökumenn tækjanna datt úr gildi með nýjum lögum um áramót. Óðinn Elísson, lögmaður og framkvæmdastjóri lögmannsstofunnar Fulltingis, telur þetta mikla afturför, sé vægt til orða tekið. Rætt var við hann í Samfélaginu á Rás 1 í dag.

„Þetta er í mínum huga alveg óskiljanleg lagabreyting og ég sé ekki hvaða rök liggja að baki, hvað það er sem kallar á breytinguna sem slíka,“ segir hann. Þessi tæki geti verið hættuleg og að þeirri röksemdafærslu sé beitt fyrir því að slysatrygging ökumanns og eiganda sé í gildi á bílum og tækjum sem þessum. 

Það hafi heyrst að ferðaþjónustan hafi þrýst á um afléttingu kröfu um tryggingu ökumanna, segir Óðinn. Hann hafi hitt forsvarsmanns ferðaþjónustufyrirtækis á dögunum á fundi hjá Samtökum vélsleðamanna og sá hafi sagt að svo væri ekki, heldur væru tryggingar forsenda fyrir rekstri ferðaþjónustufyrirtækjanna. 

Segir rétt til bóta skerðast við lagabreytingu

Nú þegar lagabreytingin hefur tekið gildi taka tryggingafyrirtækin afstöðu til þess hvort þau bjóði samt sem áður upp á hana fyrir þau sem vilja. Óðinn segir að tvö af fjórum stærstu tryggingafyrirtækjunum hér á landi ætli ekki að selja þessa tryggingu áfram, eitt ætli að bjóða upp á slysatryggingu, sem sé allt önnur vernd og lakari en ökumanns- og eigendatrygging. Eitt fyrirtækið bjóði trygginguna áfram þar sem 15 prósenta lágmark sé á örorku og segir Óðinn að það skerði bótaréttinn verulega. 

Óðinn segir alveg ljóst að vélsleðar, fjórhjól og torfærumótorhjól séu ekki aðeins notuð sem leiktæki heldur einnig við störf bænda, lagnavinnu, hjá björgunarsveitum og víðar. Lendi fólk í slysi á þessum tækjum sé mun skertari réttur til bóta í gegnum slysatryggingar en skaðabótarétt. „Þetta er ekki sami hlutur. Bótaréttur, samkvæmt skaðabótarétti, er miklu víðtækari en slysatrygging nokkurn tíma. Þannig að það að bjóða almenna slysatryggingu í stað slysatryggingar ökumanns og eiganda, það er bara ekki verið að bjóða sömu vernd,“ segir Óðinn sem skrifað hefur fjölda greina vegna lagabreytingarinnar og hyggst ekki una sér hvíldar á þeim vettvangi fyrr en lögunum verði breytt aftur í fyrra horf. 

Sama fyrirtæki dæmt vegna hrakninga ferðamanna

Ef tryggingar ferðaþjónustufyrirtækja hafa endurnýjast um áramót og forsvarsfólk þeirra ekki hugað sérstaklega að því að kaupa tryggingar fyrir ökumenn, þá eru þeir síður tryggðir en áður. Óðinn bendir á að það sé ákveðin sakarregla í skaðabótarétti, ef fólk valdi tjóni með saknæmri háttsemi geti það bakað sér skaðabótaskyldu. Slíkt komi til álita í málum eins og því þegar Mountaineers of Iceland fór með 39 ferðamenn á Langjökul þrátt fyrir ítrekaðar viðvaranir vegna óveðurs og ófærðar. „Það var búið að vara fólk við ferðum og búið að vara við veðri. Það var lagt af stað á jökul í vályndum veðurskilyrðum og þeir geta bakað sér skaðabótaskyldu vegna þess.“

Fyrir þremur árum, næstum því upp á dag, nánar tiltekið 5. janúar 2017 fór sama fyrirtæki með ferðamenn upp á jökul þrátt fyrir afleita veðurspá. Par frá Ástralíu varð viðskila við hópinn og í fyrra féll dómur í máli þeirra gegn fyrirtækinu. „Þar reyndi á sakarregluna fyrir dómi. Þetta var það alvarlegt að það var byggt á 21. grein skaðabótalaga og bótaskylda er ekki fyrir hendi nema það sé um stórkostlegt gáleysi eða ásetning að ræða. Niðurstaða héraðsdóms var sú að það væri alla vegana stórkostlegt gáleysi og þessu fólki voru dæmdar bætur.“

Varðandi mál ferðalanganna í gær, kveðst Óðinn ekki vita hvert ástand þeirra er eftir hrakningana. „Ef við horfum í dóminn sem ég nefndi áðan, þá er þetta mjög sambærilegt atvik þannig að það kæmi mér alls ekkert á óvart að það reyndi á skaðabótaábyrgð í þessu máli.

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir
Samfélagið
Þessi þáttur er í hlaðvarpi