Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Telur Íslendinga ekki afhuga kristni og kirkju

17.01.2016 - 12:36
Kross með sólstafi í bakgrunni.
 Mynd: abcdz2000 - Freeimages
Séra Þórhallur Heimisson telur að niðurstöður í nýlegri skoðanakönnun Siðmenntar gefi ekki til kynna að Íslendingar séu að verða afhuga kristni og kirkju. Í predikun sem hann hélt í Breiðholtskirkju í dag segir hann að spurningin sem lögð hafi verið fyrir þátttakendur í könnuninni hafi blandað saman alls óskyldum hlutum og fengið út niðurstöðu sem snerti á engan hátt kjarna málsins.

Þátttakendur voru spurðir að því hvort þeir teldu að Guð hefði skapað heiminn eða hvort þeir tryðu því að heimurinn hefði orðið til í svokölluðum Miklahvelli, eða á einhvern annan hátt. Greint var frá niðurstöðum könnunarinnar í fréttum RÚV.

Þórhallur segir að þarna séu í raun tvær spurningar sem hafi ekkert með hvor aðra að gera. Önnur spurningin snúi að því hvort viðkomandi trúi því að Guð hafi skapað heiminn og hin hvort hann telji að kenningin um Miklahvell skýri hvernig heimurinn varð til. Þórhallur segist svara báðum þessum spurningum játandi. Þeir sem trúi að Guð sé skapari himins og jarðar játist ekki undir eina eða aðra tegund af heimsfræði eða heimspeki. Þeir játi heldur þá trú, að hvernig svo sem heimurinn varð til og hefur þróast og hvað svo sem vísindin leiða í ljós, þá sé Guð ekki aðeins á bak við allt heldur stöðugt nærri.

Hvorug spurningin hafi nokkuð með sköpunarsögurnar í BIblíunni að gera, segir Þórhallur í prédikun. Að trúa því að Guð hafi skapaði heiminn sé ekki það sama og að trúa bókstaflega á hvern staf Biblíunnar. Sköpunarsögur Gamla testamentisins séu ævafornar og fleiri en ein. Þessar sögur séu ekki tilraun til að setja fram vísindalega tilgátu um hvernig veröldin varð til. Þetta séu dæmisögur á orðfæri síns tíma. Ef þær hefðu verið samdar í dag þá hefðu þær ef til vill byrjað á orðunum „Í upphafi skapaði Guð heiminn með Miklahvelli“.

Í könnuninni sögðust tæplega 94 prósent þeirra þátttakenda yngri en 25 ára telja að heimurinn hafi orðið til í Miklahvelli, en 0,0 prósent telja að Guð hafi skapað heiminn. Þórhallur segir að það sé prestastéttinni að kenna hversu stórt hlutfall ungs fólks hafnar sköpunarkrafti Guðs í lífinu. Hann telur að þetta sýni að prestum hafi ekki tekist í fermingarfræðslunni að koma því til skila að engin mótsögn sé milli kristinnar trúar, kristinnar trúarheimspeki og nútímavísinda. Á því beri að biðja unga fólkið afsökunar. Þótt kenningar um heiminn breytist með hverri kynslóð sé skapari himins og jarðar hinn sami í dag og um aldir. 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV