Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Telur innviðina geta orðið mjög sterka

Mynd: RÚV - Grímur Sigurðsson / RÚV
Samgönguráðherra telur að með fyrirhugaðri uppbyggingu hraðhleðslustöðva á landsbyggðinni geti innviðir fyrir orkuskipti bílaflotans orðið mjög sterkir. Íslensk stjórnvöld ætla að veita 250 milljónir króna í styrki á þessu ári til að fjölga hraðhleðslustöðvum fyrir rafbíla á þjóðvegum og hleðslustöðvum við gististaði. Gert er ráð fyrir jafnháu mótframlagi frá styrkþegum. 
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Grímur Sigurðsson - RÚV
Guðmundur Ingi Guðbrandsson.

Þrír ráðherrar kynntu í dag áform um uppbyggingu innviða vegna orkuskipta í samgöngum, byggð á tillögum starfshóps. Einblínt var á rafmagnið nú en í árslok verða kynntar aðgerðir um metan, vetni og fleira. 200 milljónir fara í styrki þess vegna. Þetta verða samtals 450 milljónir en gert er ráð fyrir því í fjármálaáætlun að 1,5 milljarði króna verði veitt til orkuskipta. 

„Við erum hér í fyrsta lagi að um þrefalda þau framlög sem eru að fara frá ríkinu til orkuskipta í samgöngum,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfis- og auðlindaráðherra.

Losun gróðurhúsalofttegunda á beinni ábyrgð íslenskra stjórnvalda til þess að Ísland geti staðið við Parísarsamkomulagið er að stærstum hluta olíunotkun. Og bifreiðar, það er vegasamgöngurnar, sjá um stærstan hluta olíunotkunarinnar. Þær eru þriðjungur af beinum skuldbindingum Íslendinga. 

„Þannig að með þeim aðgerðum, sem hér er verið að ráðast í og setja fjármagn í, rafbílavæðing fólksbílaflotans, á að geta skilað okkur um fjórðungs samdrætti í útlosun af því sem við þurfum að ná árið 2030.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Grímur Sigurðsson - RÚV
Sigurður Ingi Jóhannsson.

Fjölga á hraðhleðslustöðvum á þjóðvegunum, fjölga tengjum við hverja stöð og setja upp öflugri hleðslustöðvar sem hlaða bílana hraðar. 

„Með því að setja 200 milljónir í þetta og fá mótframlag, sem er jafnhátt hið minnsta, þá teljum við að við getum gert innviðina mjög sterka. Það áhugaverða er að það eru fjölmargir einkaaðilar búnir að sýna því áhuga að byggja upp slíkar stöðvar,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Grímur Sigurðsson - RÚV
Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir.

Samtals verða 50 milljónir króna veittar í styrki til þess að setja upp hleðslustöðvar við gististaði.  

„Þú átt þá annars vegar að geta hlaðið bílinn þinn hratt og örugglega á veginum og svo geturðu á meðan þú sefur á gististað, að þá ertu að hlaða bílinn þinn líka,“ segir Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir ferðamálaráðherra.

Þetta á að hvetja ferðamenn til að leigja rafbíla og ekki síður bílaleigurnar að bjóða upp á þess konar bíla:

„Vegna þess að þetta eru auðvitað bifreiðarnar sem koma í miklu magni inn á hinn almenna markað sem íslenskir neytendur síðan kaupa. Þannig að til þess skipta um flota að þá verða bílaleigurnar að vera með.“