Telur hugtakið „múlatti“ niðrandi

28.07.2014 - 13:08
Mynd með færslu
 Mynd:
Hugtakið „múlatti,“ sem höfundur Reykjavíkurbréfs Morgunblaðsins notaði um Bandaríkjaforseta um helgina, felur í sér úrelta hugmynd um að mannkynið flokkist í kynþætti, segir Kristín Loftsdóttir, prófessor í mannfræði. Hún telur orðið niðrandi.

Í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins um helgina er Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, sagður „blökkumaður (múlatti raunar).“ Orðanotkunin hefur vakið athygli og verið gagnrýnd á samfélagsmiðlum.

Kristín Loftsdóttir, prófessor í mannfræði við Háskóla Íslands, segir hugtakið almennt ekki notað. „Þegar ég sá þetta hugtak notað nú um helgina, þá fannst mér svolítið eins og ég væri að sjá draug úr fortíðinni. Og þetta hugtak, það gengur út frá þeirri hugmynd að við séum með tvo alveg hreina kynþætti, sem síðan blandast og þá verður úr manneskja sem kallast múlatti,“ segir Kristín.

Hún segir að þetta hugtak byggi því á vafasamri hugmynd um að mannkynið flokkist í aðskilda kynþætti. Hún telur hugtakið  vera niðrandi. „Ég myndi segja að það sé niðrandi. Vegna þess að það felur í sér að við getum flokkað margbreytileikann niður í kynþætti - svartan og hvítan. Og einhvers konar blöndu af þessum tveimur kynþáttum.“

Óskar Magnússon, útgefandi Morgunblaðsins, vildi ekki tjá sig um málið þegar fréttastofa náði tali af honum í morgun. Hann sagði: „ritstjórn hefur frelsi til sinna starfa“ og vísaði spurningum þangað. Haraldur Johannessen, annar ritstjóra Morgunblaðisins sagðist engan áhuga hafa á að ræða málið og sagði gagnrýni á orðanotkunina fráleita.