Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Telur hlutfall grænmetisæta hafa tífaldast

Mynd: RÚV / RÚV
Með því að borða sjaldnar yfir okkur, minnka kjötát og draga úr matarsóun getum við stuðlað að sjálfbærari landnýtingu á heimsvísu og spornað gegn loftslagsbreytingum. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu vísindanefndar Sameinuðu þjóðanna. Hér á landi hefur kolefnisfótspor matvæla verið nokkuð í umræðunni og veganismi sömuleiðis. En borðum við minna af kjöti? Eru fleiri orðnir grænmetisætur? Þessu er erfitt að svara því tæpur áratugur er síðan matarvenjur Íslendinga voru síðast kannaðar.

Gréta María Grétarsdóttir, framkvæmdastjóri Krónunnar, telur mataræði Íslendinga hafa tekið töluverðum breytingum á síðustu tíu árum og er fullviss um að nýsköpun í matvælaiðnaði eigi eftir að snúast í síauknum mæli um það að minnka kolefnisspor og bæta nýtni.

Kjötið á undanhaldi

„Við höfum séð þessa þróun í nokkur ár. Kjötneysla hefur minnkað sem hlutfall af heildarsölu, á móti kemur að sala á ávöxtum og grænmeti hefur aukist mikið. Við sjáum svo þessa veganbyltingu og grænmetisréttina, þeir eru að koma mjög sterkir inn og úrvalið er líka orðið miklu meira, bæði í tilbúnum réttum og frosnum réttum.“

Gréta segir að sala á sojakjöti, grænmetisborgurum og veganvarningi hafi tvöfaldast á síðastliðnum þremur árum en hversu mikið selst af kjöti? „Þetta eru stórar tölur enn þá en það hefur minnkað smátt og smátt. Ef við horfum á tíu ára tímabil erum við að tala um nokkrar prósentur.“  

Man eftir fyrstu pizzunni

Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Gréta María er framkvæmdastjóri Krónunnar.

Gréta segir framboð af mat líka orðið fjölbreyttara en áður, til dæmis hafi framboð af asískum og mexíkóskum mat aukist mikið á síðustu tíu eða tuttugu árum, slíkir réttir innihaldi oft minna kjöt en hefðbundnir íslenskir réttir. Neyslumynstrið geti breyst mjög hratt. „Ég man þegar ég var að alast upp, þó ég sé ekki orðin fertug, að pizzur voru eiginlega ekki til. Ég bjó úti á landi, svo flutti ég í borgina og ég man bara þegar ég fékk fyrstu pizzuna.“

Kominn tími á nýja rannsókn

Mynd með færslu
 Mynd: Bændasamtökin
Hvernig lítur innihald innkaupakerrunnar út í dag?

Átta ár eru liðin frá því síðast voru birtar niðurstöður landskönnunar á matarvenjum Íslendinga. Árið 2010 borðaði hver Íslendingur að meðaltali 130 grömm af kjöti á dag. Einn af hverjum hundrað sagðist aldrei borða kjöt. Kjötneysla landans hafði þarna staðið í stað frá árinu 2002 en neysla á ávöxtum og grænmeti aukist um þriðjung. Í haust stendur til að byrja á nýrri landskönnun og kannski ekki seinna vænna, mataræði er eitt af því sem hefur hvað mest áhrif á heilsu og mikilvægt að vita hvar þjóðin stendur. Tekið verður um tvö þúsund manna úrtak og fólk spurt hvað það borðaði í gær. Að könnuninni koma Landlæknisembættið, Matvælastofnun, Matís og Rannsóknarstofa í næringarfræði við Háskóla Íslands og Landspítala. Þetta er stórt og tímafrekt verkefni og ráðgert að það taki allan veturinn. Enn hefur það þó ekki verið fjármagnað nema til áramóta. 

Mynd með færslu
 Mynd:

Gréta er fullviss um að fjölgað hafi í hópi grænmetisæta á síðustu tíu árum. „Ég held að hlutfallið sé orðið hærra, við sjáum tölur á norðurlöndunum sem við teljum að séu mun hærri en hér en ég held, án allrar ábyrgðar að það sé einn af hverjum tíu sem er grænmetisæta eða vegan.“

Hættu að birta gögn um kjötneyslu á mann út af túrisma

Hagstofan birti lengi upplýsingar um meðalkjötneyslu hvers íbúa á ári. Af þeim mátti ráða að neysla lambakjöts hefði minnkað, farið úr tæpum 26 kg á hvern Íslending árið 2000 niður í 19,5 árið 2015, neysla á alifuglakjöti jókst um tæpan þriðjung frá aldamótum fram til 2015, var þá orðin tæplega 30 kíló. Neysla á svína og nautakjöti jókst lítillega á tímabilinu. Þessar tölur eru ekki gallalausar. Hagstofan hætti að taka þær saman því neysla ferðamanna var farin að skekkja myndina.

Sala á kjúklingi staðið í stað

Gögn Hagstofunnar um kjötsölu innanlands ná til ársins 2018 og gefa kannski einhverja mynd. Lambakjötssala hefur staðið í stað frá aldamótum, sala á alifuglakjöti hefur þrefaldast, nautakjötssala hefur aukist um þriðjung og sala svínakjöts aukist um 40%. „Við höfum séð að svínakjöts- og kjúklinganeysla hefur aukist en við erum ekki að sjá aukningu þar, til dæmis í kjúklingi milli ára eins og var þróunin. Það var aukning milli ára en það er eiginlega að stöðvast og þá eins og ég segi eru komnir alls konar, eins og vegan, möguleikar í staðinn.“

Mynd með færslu
 Mynd: CC0 - Pixabay
Grillkjöt.

Kjötát og ofát stuðlar að loftslagsbreytingum

Um fjórðungur losunar gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu skrifast á landnotkun. Landnotkun hefur síðustu áratugi aukist hraðar en nokkru sinni fyrr og notkunin er víða ósjálfbær. Regnskógar eru ruddir, búfé beitt á viðkvæmt land og notkun ólífræns áburðar hefur nífaldast, svo dæmi séu nefnd. Í nýrri skýrslu vísindanefndar Sameinuðu þjóðanna kemur fram að loftslagsbreytingar séu þegar farnar að grafa undan matvælaöryggi í heiminum. Það þurfi að bæta umgengni um land og nýta það betur þannig að jörðin geti áfram brauðfætt mannkynið. Mannkynið er fjórfalt fjölmennara en fyrir hundrað árum en það er ekki bara fjöldinn sem veldur aukinni eftirspurn eftir matvælum, neyslan hefur líka breyst. Meðaljarðarbúi neytir tvöfalt meira kjöts nú en fyrir sextíu árum og vísindamenn sem komu að skýrslunni segja mikla kjötneyslu Vesturlandabúa eitt af því sem knýr loftslagsbreytingar áfram. Þá benda þeir á þá staðreynd að enn er 25 til 30% alls matar sóað já og að allt of margir borði allt of mikið. Með því að nýta land með sjálfbærari hætti, draga úr sóun og ofáti,  borða meira úr jurtaríkinu og framleiða kjöt með sjálfbærum hætti megi bæta landgæði og þar með efla þol jarðar gagnvart loftslagsbreytingum, sporna gegn hungri og fátækt, styrkja vistkerfi og draga úr útrýmingu tegunda. Halldór Þorgeirsson, formaður loftslagsráðs stjórnvalda, segir að skýrslan sé ekki tilefni til að umbylta landbúnaði hér á landi. Íslendingar megi þó alveg taka mataræði sitt til skoðunar. 

Gámagramsarar velkomnir

Gréta segir að verslunin geti lagt sitt af mörkum með því að bjóða neytendum val. Þeir geti valið grænmetisrétti eða jurtajógúrt í stað nautakjöts og skyrs. En sóknarfærin liggi líka í því að draga úr matarsóun. Krónan hafi selt grænmeti og ávexti sem farið er að sjá á á lægra verði og sömuleiðis vörur sem komnar eru nálægt síðasta söludegi. „Magnið sem við erum að selja af þessu hefur tvöfaldast á síðustu tólf mánuðum,“ segir Gréta. Litlu sé hent og lífrænn úrgangur frá versluninni hafi dregist saman um tugi prósenta á síðustu árum. Hún segir að það komi til greina að semja við hjálparsamtök, sé útlit fyrir að mikið magn einhverra matvæla séu að renna út. Hingað til hafi ekki verið þörf á því. Þá segir hún þeim sem stunda gámagrams (e. dumpster diving), velkomið að taka grænmeti og ávexti úr gámum við Krónuna, þeim sé ekki læst.

Breytt kauphegðun

Mynd með færslu
 Mynd:

Gréta segist merkja breytingar á kauphegðun fólks. Fólk kaupi til dagsins í dag í stað þess að birgja sig upp. Sumir myndu kannski skrifa þetta á hraðann í nútímasamfélagi, skyndimenninguna en Gréta telur þetta af hinu góða. „Þú ert ekki að kaupa fyrir vikuna og ákveða að hafa þetta á fimmtudag og þetta á föstudag, svo langar þig ekki í það þá. Það að fólk komi oftar og kaupi þá bara það sem það þarf verður til þess að það endar minna í ruslinu heima fyrir.“ 

Veitingastaðir og framleiðendur sóa mestu

Umhverfisstofnun rannsakaði matarsóun á Íslandi árið 2016, Ný könnun verður gerð í haust. Tekið er úrtak heimila og fyrirtækja og fólk beðið að vigta mat og matarúrgang sem fer til spillis á heimilinu. Í ljós kom að hver íbúi hér á landi henti að meðaltali 23 kg af nýtanlegum mat á ári hverju,með því er átt við mat sem farinn er að skemmast eða kominn fram yfir síðasta söludag. Hver íbúi henti líka 22 kg af matarolíu og fitu og 199 kg af drykkjum. Mest var sóunin í veitingarekstri og matvælaframleiðslu og reyndist hún mun meiri hér en annars staðar í Evrópu.

Viðsnúningur í nýsköpun

Gréta telur að nýsköpun í matvælaiðnaði eigi eftir að snúast í síauknum mæli um það að lækka kolefnisspor og bæta nýtni. Þetta sé ákveðinn viðsnúningur. 
„Ef við horfum á þetta í sögulegu samhengi er ekki langt síðan allt snerist um að búa til stórtækari vinnuvélar til að rækta meira land. Nú er þetta að breytast og við sjáum fókus á lóðrétta framleiðslu þar sem er verið að rækta alls konar matjurtir á mörgum hæðum. Þetta er hluti af því að minnka landsvæðið sem þú þarft undir ræktun en ekki bara það, heldur líka eru þá tækifæri til að vera með þetta inni í borgum og þá er styttri flutningur á vörunni.“

Mynd með færslu
 Mynd: Landinn - RÚV
Er betra að rækta tómata á mörgum hæðum?

Þá sé hringrásarhagkerfið að ryðja sér til rúms í matvælageiranum. Sprotafyrirtæki séu farin að nýta það sem fellur til við framleiðslu, brugga úr brauðafgangi eða nota safa úr afgangsgúrkum í snyrtivörur. Það sem stendur í vegi fyrir að þessari þróun vaxi fiskur um hrygg er að sögn Grétu helst hversu lítið fellur til, það sé erfitt að stofna fyrirtæki í kringum gúrkusafa eða brauðafganga en það gæti verið liður í stærri starfsemi.