Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Telur hægt að mynda fimm flokka stjórn

02.12.2016 - 16:52
Mynd: Skjáskot / RÚV
„Ég er vongóð um að okkur öllum takist að finna leið til að vinna saman,“ sagði Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, eftir að hún fékk stjórnarmyndunarumboð. Birgitta sagði að ekkert hefði breyst í viðræðum flokkanna fimm annað en að Pírötum hefði verið lögð sú skylda á herðar að fara með stjórnarmyndunarumboð. Hún lagði áherslu á að þetta væri samvinna fimm flokka. Píratar gera ekki tilkall til forsætisráðuneytisins, þar er ekkert útilokað, segir Birgitta.

Birgitta sagði að Píratar, Vinstri-græn, Viðreisn, Björt framtíð og Samfylkingin væru ólíkir flokkar en samfélagið kallaði eftir ákveðnum breytingum og flokkarnir þyrftu að vinna saman að ákveðnum málum. Þar vísaði hún sérstaklega til heilbrigðiskerfisins og stöðu á vinnumarkaði. „Ég sé það fyrir mér að ef við náum þessum ólíku flokkum saman

Birgitta sagði fyrsta skrefið vera að hitta þingflokk Pírata. Hún sagðist hafa haft samband við formenn annarra flokka í fyrirhuguðum fimmflokka viðræðum eftir að forseti boðaði hana á sinn fund.

Gerir ekki tilkall til forsætisráðuneytisins

„Við erum ekki komin á þann stað og erum ekki að gera tilkall til forsætisráðuneytisins,“ sagði Birgitta. Hún sagði mikilvægt að ná utan um stóru málin, fjármögnun heilbrigðiskerfisins og annarra útgjaldaliða og sjávarútvegskerfið. Skoða þyrfti hver væri bestur í að fá ólíkar raddir flokkanna til að vinna saman.

Birgitta sagði að reisa þyrfti brú milli Viðreisnar og Vinstri-grænna og taldi að ekki væri mjög langt á milli.