Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Telur gjaldtöku ekki bestu lausnina

24.07.2017 - 08:56
Mynd: RÚV / RÚV
Ísólfur Gylfi Pálmason, sveitarstjóri Rangárþings eystra, segir að gjaldtaka við Seljalandsfoss, sem hófst um helgina, sé tímabundin. Í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun sagði Ísólfur Gylfi að ekki væri lengur hægt að bíða eftir því að ríkið innheimti gjald af ferðamönnum til að byggja upp innviði.

Gjald á bílastæði við fossinn eru 700 krónur fyrir bíla og 3.000 krónur fyrir rútur. Gjaldtakan er samvinnuverkefni landeigenda og sveitarfélagsins. „Við hefðum auðvitað kosið að ríkisvaldið myndi nýta meira af peningum í þessa uppbyggingu. Það hefur oft verið talað um komugjöld og þess háttar en það hefur verið ákveðin tregða í því,“ segir Ísólfur.

Hann bendir á að á undanförnum 15 árum hafi sveitarfélagið varið um 30 milljónum til uppbyggingar á svæðinu í kringum Seljalandsfoss. „Að vísu höfum við fengið styrki frá bæði Skipulagsstofnun og Ferðamálasjóði en þetta eru engu að síður miklir peningar. Við sjáum ekki fram á annað en að verða að innheimta þarna til að geta byggt upp innviði.“ Gjaldtakan sé tímabundin þar til ríkið hefji innheimtu gjalds af ferðamönnum til að byggja upp innviði á ferðamannastöðum. Hann kveðst þó ekki bjartsýnn á það gangi hratt fyrir sig. Hann hafi setið á Alþingi áður fyrr og þá tók hann 8 ár að fá fyrstu þingsályktunartillögu sína samþykkta. 

Mikil uppbygging tengd ferðaþjónustu hefur verið í sveitarfélaginu á undanförnum árum. Ísólfur segir ekki eðlilegt að hinn almenni borgari greiði fyrir uppbyggingu á salernisaðstöðu, bílastæðum og öðru. „Þetta er ekki besta lausnin en við neyðumst til að gera þetta.“ Til tals hefur komið að taka einnig upp gjald við Skógafoss. „Það er staður líka sem gríðarlega margir ferðamenn koma að og við höfum verið að velta því fyrir okkur hvernig við eigum að bregðast við því.“ Hann vonast þó til að áður en til þess komi taki ríkið upp gjaldtöku af ferðamönnum. 

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir