Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Telur fyrirmynd að ráðningarsamningi ráðlega

23.11.2019 - 12:54
Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Halldór Halldórsson, fyrrverandi formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, telur að sambandið ætti ekki að hafa umsjón með ráðningarsamningum sveitarstjóra. Hins vegar gæti sambandið búið til fyrirmynd að slíkum samningi sem hægt væri að styðjast við. Sambandið haldi yfirlit yfir laun sveitarstjóra og kjörinna fulltrúa eftir stærðum sveitarfélaga. Rætt var við Halldór í Vikulokunum.

Bryndís Sigurðardóttir hætti störfum sem sveitarstjóri Tálknafjarðarhrepps í gær en hún var ráðin í október í fyrra. Í hreppnum búa um 260 manns. Á fundi sveitarstjórnar og sveitarstjóra á fimmtudag var tekin sameiginleg ákvörðun um að leiðir lægu ekki lengur saman og samið var um starfslok Bryndísar.

Bryndís sagði í hádegisfréttum að niðurstaðan hafi ekki komið henni á óvart. „Það þarf að ríkja traust og gott samkomulag. Það er mikið búið að vera að gerast, miklar framkvæmdir og álag á fólki og stundum getur þetta farið svona. Það þarf ekki að vera neitt flókið eða dramatískt. Starf sveitarstjóra er svolítið ótryggt. Við erum svolítið svona eins og fótboltaþjálfarar sem fá stundum að fjúka fyrirvaralaust og þar er ekki auðvelt að gera ráðningasamninga við sveitarstjóra sem tryggja starfsöryggi.“

Bryndís segir á Facebook síðu sinni að hún taki undir með Gunnlaugi A. Júlíussyni, fyrrverandi sveitarstjóra Borgarbyggðar, um að vanda þurfi betur til verka við ráðningarsamninga, og kallar eftir því að Samband íslenskra sveitarfélaga taki þá vinnu að sér. Gunnlaugi var sagt upp störfum í síðustu viku.

Bar saman kjör annarra í sömu stöðu 

Halldór var bæjarstjóri á Ísafirði í tólf ár. Hann segir að þegar hann var tók við starfinu hafi hann leitað til annarra sveitarstjóra til að kanna launamál. Hann líkti líka starfsöryggi bæjarstjóra við starf fótboltaþjálfara í Vikulokunum í morgun. Hann telur samt ekki að Samband íslenskra sveitarfélaga eigi að hafa umsjón með ráningarsamningum sveitarfélaga. 

„Hins vegar gæti Sambandið alveg búið til einhverja fyrirmynd að svona samningi sem að fólk gæti þá bara náð í og tryggði ákveðin lögfræðileg atriði, lágmarksréttindi og eitthvað slíkt. Sem ætti að vera svo sem hægt að gera með því að vísa almennt í kjarasamninga í svona samningum. Kannski er það ekki gert því lágmarksréttindi eru auðvitað tryggð í kjarasamningum,“ segir Halldór. 

Halldór segir að á sínum tíma hafi verið tilhneiging í þá átt að lengja uppsagnarfrest og alls konar réttindi.  

„Svo fór það að snúast við, að mínu mati, fór að styttast aftur. Kannski var bara farið  of langt í hina áttina. Ég kann auðvitað ekki frá því að segja, varðandi þessa tvo einstaklinga.“