Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Telur framleiðslu bitcoin sóun á raforku

17.07.2019 - 11:09
Mynd tekin í gagnaveri Facebook í Svíþjóð. - Mynd: EPA / EPA
Fyrrum viðskiptaráðherra og dósent í hagfræði við Háskóla Íslands segir að framleiðsla bitcoin sé sóun á orku og að það megi slá verulega varnagla við umhverfisáhrifunum sem henni fylgja því sóun orku sé eitt stærsta vandamálið sem jarðarbúar standa frammi fyrir.

Gagnaverum hefur fjölgað hratt á Íslandi undanfarin ár og orkuþörf þeirra er orðin á við öll heimili landsins samanlagt. Orkuþörf gagnavera vex hratt og er meðal ástæðna þess að Landsnet telur líkur á orkuskorti hér á landi eftir einungis þrjú ár. Eitt helsta verkefni gagnavera á Íslandi er að grafa eftir rafmyntinni bitcoin. Gylfi Magnússon, fyrrum viðskiptaráðherra og dósent
í hagfræði við Háskóla Íslands, ræddi um rafmyntina í Morgunútvarpinu á Rás 2.

Fimm prósent orku hérlendis fara í framleiðsluna

Að sögn Gylfa er rafmyntin hönnuð með það í huga að láta raforkunotkun takmarka hversu mikið af myntinni sé hægt að framleiða. Mikilli orku sé sóað um allan heim í útreikninga sem þjóni engum tilgangi nema að framleiða myntina. Um 0,2 prósent af heildarraforkuframleiðslu heimsins og um fimm prósent hérlendis fara í að að búa til bitcoin. Gylfi segir að þetta sé gífurleg sóun.

„Það er sorglegra en tárum taki því mikil og vaxandi orkunotkun er alheimsvandamál vegna hnattrænnar hlýnunar. Þó svo 0,2 prósent sé ekki mikið þá þegar litið er á allan heiminn, er verið að sóa þarna gífurlegri orku,“ segir Gylfi. Hann segir að það spákaupmenn stýri verðinu á rafmyntinni og viðskiptin minni helst á pýramídasvindl.

„Menn treysta því að hægt sé að finna meira flón sem er til í að kaupa á hærra verði. Bitcoin er eiginlega ekkert notað í alvöru viðskiptum, helst í svörtu hagkerfi sem menn eru að nota þessa mynt,“ segir Gylfi. 

Bitcoin er bóla sem mun springa

Gylfi hefur ekki mikla trú á bitcoin og að það komi að því að bólan muni springa. Það sé hins vegar ómögulegt að segja til um hvenær það gerist og þangað til gæti bitcoin hækkað verulega í verði. Einhverjir gætu haft tekjur af rafmyntinni og framleiðslu hennar en það ætti ekki að gera langtímaáætlanir tengdar bitcoin.

„Á meðan bólan springur ekki er hægt að hafa tekjur af því að grafa upp eftir þessu og selja rafmagn í það. Það kemur fram í tölum um útflutning og raforkusölu innanlands, að á meðan bólan er ekki sprungin eru tekjur af framleiðslunni en þetta er ekki eitthvað sem er æskilegt til langframa,“ segir Gylfi. Honum finnst það einnig álitamál hvort það sé siðferðilega verjandi að nota græna orku hérlendis til þess að búa eitthvað til sem í raun nýtist engum. 

Stjórnvöld þurfa að huga að orkuöryggi 

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, atvinnuvegaráðherra, sagði í kvöldfréttum í gær að gagnaverin leggi til útflutningsverðmæti. Spurður hvort stjórnvöld ættu að hafa fingurna í vexti atvinnugreinarinnar segir Gylfi að hið opinbera gegni ákveðnu hlutverki og það þurfi meðal annars að huga að orkuöryggi. Ef eftirspurn eftir rafmagni er meiri en framboðið geti það leitt til þess að það sé ekki nóg rafmagn fyrir alla.

„Það er lágmarkskrafa að hið opinbera tryggi nauðsynlega starfsemi, ekki bara fyrir heimili og fyrirtæki, heldur einnig fyrir innviði eins og götulýsingu og dælingu á heitu og köldu vatni og skólpi. Það þarf að gæta þess að notkun á rafmagni í gagnaver verði ekki til þess að það þurfi að skammta rafmagn í slíka starfsemi,“ segir Gylfi. 

Hann segir að aukin raforkuframleiðsla til að standa undir framleiðslu rafmyntarinnar sé áhættufjárfesting og að það geti haft áhrif á raforkuverð innanlands. Hann er ekki viss um að þetta borgi sig til langframa.

„Það er hægt að hafa einhverjar tekjur af þessu og fá greitt í gjaldeyri til skamms tíma en ég er ekki viss um að þetta verði heillaskref til langs tíma,“ segir Gylfi. Það verði jafnframt að slá verulega varnagla við umhverfisáhrifin sem fylgja framleiðslunni. „Það er kannski ekki mjög æskilegt að vera að byggja upp starfsemi sem í grundvallaratriðum byggir á sóun á orku.“

Tinna Eiríksdóttir
Fréttastofa RÚV