Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Telur ferðabannið hafa talsverð áhrif á ferðaþjónustuna

12.03.2020 - 07:56
Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Ferðamálastjóri segir að ferðabann Bandaríkjaforseta hafi komið sér á óvart, en Donald Trump tilkynnti um algjört bann við ferðum frá Evrópu til Bandaríkjanna í 30 daga frá og með miðnætti á föstudag vegna COVID-19 veirunnar. Það sé alveg ljóst að bannið muni hafa talsverð áhrif á ferðaþjónustuna á Íslandi, en mikilvægt sé að hafa í huga að sumarmánuðirnir skipti þar öllu máli.

„Flestir ferðamenn sem hingað koma á öllum árstímum eru frá Bandaríkjunum þannig að áhrifin til skemmri tíma verða ábyggilega talsverð. En hins vegar er mikilvægt að hafa í huga að þetta er mál sem ætti að ganga yfir á tiltölulega skömmum tíma,“ segir Skarphéðinn Berg Steinarsson ferðamálastjóri.

Hann bendir á að aprílmánuður sé jafnan ekki stór í ferðaþjónustunni og því skipti miklu máli að reyna að tryggja það að sumarmánuðirnir haldist traustir.

„Það skiptir miklu máli að reyna að halda því sem við erum með fyrir sumarið og reyna að auka við það. Það er sú árstíð sem skiptir okkur mestu máli.“

Voru þetta óvænt tíðindi að vakna upp við í morgun?

„Já, þetta kom mér nú á óvart. Sérstaklega af því að Bandaríkin hafa ekki verið að gera mikið. En þegar þau gerðu eitthvað þá gerðu þau það almennilega,“ segir Skarphéðinn Berg Steinarsson ferðamálastjóri.