Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Telur að tilefni hefði verið fyrir húsleit

20.02.2019 - 17:57
Mynd með færslu
 Mynd:
Þau gögn sem fréttaskýringarþátturinn Kveikur hafði undir höndum og yfirlýsing forsvarsmanna bílaleigunnar Procar gaf lögreglu tilefni til að gera húsleit hjá bílaleigunni. Þetta er mat Páls Bergþórssonar, lögmanns hjá lögmannsstofunni Rétti. Eftir því sem hann kemst næst hefur lögregla þó ekki farið í slíka húsleit. „Húsleitin og haldlagning hefði orðið til þess að varðveita gögn,“ segir Páll.

Forsvarsmaður bílasölunnar Bílamarkaðarins leitaði til lögmannsstofunnar Réttar eftir að Kveikur greindi frá því á þriðjudag í síðustu viku að kílómetramælar í bílum Procar hefðu verið skrúfaðir niður. Bílamarkaðurinn seldi bíla fyrir Procar og Páll bendir á að Bílamarkaðurinn hafi orðið fyrir orðsporshnekki vegna málsins og viðskiptavinir kunni að hafa orðið fyrir tjóni.

„Við erum að fara yfir réttarstöðuna og skoða hvernig best er að bregðast við þessu,“ segir Páll. Hann bendir á að það geti verið erfitt fyrir þá sem keyptu bíla af Procar að fá úr því skorið hvort þeir hafi orðið fyrir tjóni.

Í yfirlýsingu sem forsvarsmenn Procar sendu frá sér eftir að Kveikur greindi frá gögnunum kom fram að fyrirtækið hafi undirbúið ferli sem miðaði að því að þeir sem keyptu umrædda bíla geti sótt um leiðréttingu sinna mála.

„Óháður aðili verður fenginn til að úrskurða um sanngjarnar bætur til þeirra sem keyptu bíla með ranga kílómetraskráningu af fyrirtækinu á þessum árum. Þeim sem keyptu bíla af bílaleigunni á árunum 2013-2016 er boðið að hafa samband með töluvpósti við Draupni lögmannsþjónustu á netfangið [email protected] sem mun hafa milligöngu um greiðslu bóta til þeirra sem keyptu bíla sem átt var við með þessum hætti á umræddu tímabili. Þá geta þeir sem keyptu bifreiðar af Procar á umræddu tímabili fengið ópersónugreinanleg afrit af leigusamningum viðkomandi bifreiðar til að fá fullvissu um hvort átt hafi verið við kílómetramæli viðkomandi bifreiðar,“ segir í yfirlýsingunni.

Páll segist hafa efasemdir um það hversu trúverðugt þetta ferli geti verið, enda sé lögmannsstofan Draupnir ráðin af bílaleigunni fyrir verkefnið.

Fréttastofa hefur óskað upplýsinga frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu um framgang rannsóknar í málinu en ekki fengið svör.