Telja sig vita hver faðir barnanna er

17.12.2019 - 11:25
Mynd með færslu
 Mynd: Lögreglan á Austur-Jótlandi - DR
Lögreglan á Austur-Jótlandi hefur líklega komist að því hver faðir yfirgefnu barnanna í Árósum er. Talið er að hann sé þrjátíu og fjögurra ára gamall Afgani sem dvaldi í Danmörku en var vísað úr landi.

Danska ríkisútvarpið, DR, hefur eftir lögreglu að vitað sé að faðirinn er í útlöndum. Þó er ekki vitað hvar. Ekki er vitað hver móðir þeirra er en talið er að hún sé ekki í Danmörku. 

Börnin fundust yfirgefin við strætisvagnastöð í miðborg Árósa á laugardag. Talið er að þau séu eins árs og tveggja og hálfs árs. Kona á sextugsaldri var handtekin í gær en sleppt undir kvöld. Hún kveðst vera föðuramma barnanna. Hún er grunuð um vanrækslu á börnunum. 

Félagsmálastjóri Árósa sagði á blaðamannafundi í gær að líðan barnanna sé góð miðað við aðstæður. Þau virðist vera heilbrigð og hafa fengið góða umönnun. Þau hafi þó að sjálfsögðu orðið fyrir áhrifum af atburðum síðustu daga. 

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi