Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Telja Hvalárvirkjun miðast við röng landamerki

24.06.2019 - 13:02
Mynd með færslu
 Mynd: Ólafur Már Björnsson
Eigendur meirihluta jarðarinnar Drangavíkur á Ströndum hafa kært deiliskipulag og framkvæmdaleyfi fyrsta áfanga Hvalárvirkjunar til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Landeigendur segja skipulag vegna virkjunarinnar byggjast á röngum landamerkjum og að hluti framkvæmda sé á þeirra landi. 

Telja að miðað sé við röng landamerki

Tíu eigendur standa að kærunni en jörðin er í eigu fimmtán manns og eins dánarbús. Jörðin er óskipt og nær frá Drangajökli að sjó, á milli jarðarinnar Dranga í norðri og jarðanna Ófeigsfjarðar og Engjaness í suðri. Kærendur segja að Vesturverk og Árneshreppur hafi notað röng landamerki við skipulagningu Hvalárvirkjunar og að vatnasvið Eyvindarfjarðarvatns samkvæmt Landamerkjabréfi frá 1890 sé alfarið innan jarðarinnar Drangavíkur, því hafi ekki verið breytt síðan.

Mynd með færslu
 Mynd: Sigurgeir Skúlason - Aðsend
Meirihluti landeigenda telja að miðað sé við röng landamerki

Eru á móti Hvalárvirkjun

Í tilkynningu frá landeigendum segir að nýting vatnasviðs Eyvindarfjarðarár sé sögð vera ein meginforsenda Hvalárvirkjunar. Reisa eigi stíflu og gera miðlunarlón þar sem er Eyvindarfjarðarvatn í landi Drangavíkur, sem landeigendur hafi ekki veitt heimild fyrir. Meirihlutaeigendur Drangavíkur séu á móti Hvalárvirkjun og hafi ekki hug á að semja við Vesturverk um nýtingu vatnsréttinda í þágu virkjunarinnar. Þeir vilji að víðerni verði áfram óröskuð og telja virkjunina ekkert gera fyrir mannlíf á Ströndum heldur frekar eyðileggja möguleika sem felast í náttúruvænni uppbyggingu atvinnulífs. Þá sé Hvalárvirkjun ekki nauðsynleg til að tryggja raforkuöryggi á Vestfjörðum og að bygging hennar leiði til neikvæðra umhverfisáhrifa af háspennulínum.

Óska eftir stöðvun framkvæmda

Kærendur fara þess á leit að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til umfjöllunar og að deiliskipulag fyrir rannsóknir og nýútgefið framkvæmdaleyfi, sem sé fyrir fyrsta áfanga Hvalárvirkjunar, verði fellt úr gildi. Kröfur um ógildingu byggist á umhverfisvernd. Víðerni innan landamerkja Drangavíkur skerðist við vegaframkvæmdir sem Árneshreppur hefur nú veitt leyfi fyrir á landi Drangavíkur. Ekkert samráð hafi verið haft við landeigendur við undirbúning virkjunarinnar eða skipulagsvinnu. Kæruréttur landeiganda hafi ekki orðið virkur fyrr en við samþykkt framkvæmdaleyfisins fyrir skömmu.