Telja heilsumiðstöð í Kópavogi geta létt álagi af LSH

13.01.2020 - 10:13
Mynd:  / 
Heilbrigðisráðuneytið hefur til skoðunar hugmyndir um að opna heilbrigðisþjónustu fyrir á annað hundrað sjúklinga í Kópavogi. Framkvæmdastjóri Heilsuverndar segist sannfærður um að með þessi mætti létta álaginu af Landspítalanum. Ráðist hefur verið í milljarða fjárfestingar í húsinu.

Við Urðarhvarf í Kópavogi stendur 25.000 fermetra bygging. Húsið var byggt á árunum 2007-2010. Það hefur staðið galtómt síðan og fengið viðurnefnið Kreppuhöllin. En nú er að verða breyting þar á, því að starfsemin í Orkuhúsinu við Suðurlandsbraut er að flytjast þangað. Tekið verður á móti fyrstu sjúklingunum í þessari viku og starfsemin verður alfarið flutt fyrir mánaðamót. Sú starfsemi samanstendur af sjúkraþjálfun, bæklunarlæknaþjónustu, skurðstofum og röntgenþjónustu, og kostnaður við uppsetninguna hleypur á milljörðum. Þá verður NPA-miðstöðin í húsinu, auk apóteks. 

Margháttuð starfsemi

Þessi starfsemi verður í um það bil helmingi þessarar risastóru byggingar, en ekki liggur fyrir hvað eigi að gera við hinn helminginn. Nú eru hins vegar uppi stórar hugmyndir um hvernig megi nýta þá fermetra.

„Við höfum séð fyrir okkur að það væri hægt að nýta húsið undir margháttaða heilbrigðisstarfsemi,“ segir Teitur Guðmundsson, læknir og framkvæmdastjóri Heilsuverndar. „En það sem vantar og hefur verið umræða um, er þjónusta fyrir aldraða, endurhæfingarúrræði, samtvinnuþjónusta við heilsugæslu og þá sem eru fyrir utan til þess að styðja fólk í heimahúsi, en ekki síst að hjálpa Landspítala við fráflæðisvanda þeirra og að koma fólki aftur til síns heima.“

Teitur segir að með þessu væri hægt að taka á móti að minnsta kosti 120 til 150 sjúklingum. Hann segir að þetta yrðu ekki bara rými fyrir aldraða heldur fyrir ýmiss konar sjúklinga. „Það má eflaust vinna mikið með þeim aðilum sem verða í húsinu. Þarna er mjög stór sjúkraþjálfun, þarna er Orkuhúsið komið, þarna fer mikil heilbrigðisstarfsemi fram og það býður upp á ýmis tækifæri.“

Enginn vafi

Heilsuvernd sendi heilbrigðisráðuneytinu formlegt erindi um þetta í síðustu viku, og samkvæmt upplýsingum frá ráðuneytinu verður málið tekið til skoðunar. Ráðuneytið hafnaði sambærilegri hugmynd um starfsemi í húsinu árið 2018 en Teitur segir að flutningur Orkuhússins þangað gjörbreyti myndinni. „Ég efast ekkert um að það eru gríðarleg samlegðaráhrif í þessu. Og það er auðvitað margt sem kemur til. En þegar svona stór eining færist, og möguleikarnir eru þeir sem þeir eru, þá held ég að menn eigi að skoða að nýta það.“

Aðaleigandi hússins er Þorvaldur Gissurarson, forstjóri ÞG verks. Öll rými í húsinu eru leigð út. Þótt nægt rými sé í húsinu þarf starfsfólk til þess að annast sjúklingana. Teitur segir vel hægt að finna það starfsfólk. Líklega yrði verkefnið unnið í samstarfi við Hrafnistu. Starfsemin yrði fjármögnuð með samningi við ríkið, og Teitur segir að það tæki að minnsta kosti sex mánuði að hefja starfsemi frá því að samningar næðust.

Þið eruð í einkarekstri, eruð þið ekki fyrst og fremst að þessu til að hugsa um eigin hag?

„Það er alveg satt. En við höfum líka verið í miklum rekstri með annað og við erum með samninga við ríkið um aðra þjónustu og við höfum verið að vinna með öðrum aðilum í öldrunarþjónustu sem hafa áratuga reynslu af þessu sem væri módelið. Það er auðvitað þannig að flestir eru að vinna eftir því módeli, með samningi við ríkið um rekstur hjúkrunarheimila og endurhæfingu. Það myndum við vilja gera,“ segir Teitur.

Þið teljið raunverulega að þetta geti létt á álaginu á Landspítalanum?

„Ég er alveg sannfærður um það. Enginn vafi í mínum huga.“