Telja enga ógn stafa af ársreikningum á ensku

02.11.2018 - 09:45
Mynd með færslu
Fjármálastjóri Össurar er einn þeirra sem skrifar undir umsögnina Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Forstjórar og forsvarsmenn nokkurra stærstu fyrirtækja á Íslandi fagna því að fyrirtækjum verði heimilað að semja ársreikning eða samstæðureikning á ensku án þess að þurfa að sækja fyrir því undanþágu, eins og lagt er til í frumvarpi iðnaðarráðherra. Stórfyrirtækin telja aftur á móti ekki nógu langt gengið með frumvarpinu og vilja ekki vera neydd til að þýða ársreikningana yfir á íslensku. Íslensk málnefnd segir að stundargróði megi aldrei vera á kostnað íslenskrar tungu.

Meðal þeirra sem skrifa undir umsögnina eru Hilmar Veigar Pétursson, forstjóri CCP, Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair og Sveinn Sölvason, fjármálastjóri Össurar. Ásta Sigríður Fjeldsteð, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands, skrifar einnig undir sem og Páll Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar.

Forsvarsmönnum fyrirtækjanna þykir miður að ekki hafi verið tekið tillit til ábendinga á fyrri stigum í meira mæli en gert er í frumvarpinu. Þau hafi lagt til að aflétt verði þeirri kvöð að fullu að þau þurfi að þýða ársreikninga sína og skila ársreikningaskrá á íslensku.  Það eigi að duga að gera grein fyrir honum á íslensku á aðal- eða hluthafafundi. „Annar en síðri kostur að mati undirritaðra væri að heimila þeim félögum sem skila ársreikningi eða samstæðureikningi á ensku að skila jafnframt útdrætti úr honum á íslensku,“ segir í umsögninni.

Þau telja að kvöðin geti orðið sérstaklega þungbær fyrir minni fyrirtæki sem séu að hasla sér völl erlendis. Félög, sem séu í leit að fjármagni á erlendri grundu, þurfi að framvísa ársreikningum á ensku „og því skapast tvíverknaður og aukinn og óþarfur kostnaður sem lítil fyrirtæki munar verulega um.“ Þetta geti verið sérstaklega íþyngjandi fyrir þessu fyrirtæki.

Þessu til viðbótar bendi kannanir til þess að níu af hverjum tíu Íslendingum skilji ensku. „Þá verður að horfa til þess að í ársreikningum er að finna mjög sérhæfð hugtök sem kalla á sérþekkingu og því ólíklegt að þeir sem skilja þau á íslensku skilji þau ekki á ensku.“ Með þessum ósveigjanleika sé hið opinbera að fjötra íslenskt atvinnulíf um of, skapa regluverk sem dragi úr samkeppnishæfni og geri þannig Ísland að eftirbát annarra landa í alþjóðlegri samkeppni. 

Stórfyrirtækin telji enga ógn stafa að þjóðartungunni þótt fyrirtækjum verði heimilað að notast við enska tungu við ársreikninga- eða samstæðureikningagerð og að þeir verði ekki þýddir á íslensku. Kostnaður við slíkar þýðingar geti hlaupið á milljónum króna.  „Slíkar álögur eru til þess fallnar að draga úr samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs, sem ýtir öðru fremur undir að fólk og fyrirtæki velji önnur og samkeppnishæfari lönd undir sína starfsemi.“ Það sé mun meiri ógn við þjóðartunguna en það að nokkur fyrirtæki skil ársreikningum á ensku verður nokkurn tíma.

Fyrirtækin telja að þetta skerði ekki með nokkrum hætti gagnsæi eða aðgang almennings að upplýsingum.  „Að sama skapi er rökrétt að álykta að birting slíkra ársreikninga án íslenskrar þýðingar hafi engin neikvæð áhrif á verndun og framgang íslenskrar tungu.“

Stjórn íslenskrar málnefndar er algjörlega ósammála þessari umsögn stórfyrirtækjanna. Hún telur að sú tilslökun sem kveðið sé á um í frumvarpinu, um að félögum verði heimilt að geta notað ensku við gerð ársreikninga,  sé varhugaverð. Hætta sé á að þau færi sig upp á skaptið og nýti sér þessa klausu í hagnarðskyni. „Öllum ætti að vera ljóst að það kostar sitt að vera fámenn þjóð en stundargróði má aldrei vera á kostnað íslenskrar tungu,“ segir í umsögn frá stjórn Íslenskrar málnefndar.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV