Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Telja ekki bráða mengunarhættu af bílhræjunum

30.12.2019 - 12:25
Bílhræ við Garðstaði í Ísafjarðardjúpi
 Mynd: Jóhannes Jónsson - RÚV
Heilbrigðiseftirlit Vestfjarða telur ekki bráða mengunarhættu stafa af hundruðum bílhræja á Garðstöðum í Ísafjarðardjúpi. Matið byggist á skoðun á hræjunum 2014.

Fjallað var um söfnun bílhræja á Garðstöðum í kvöldfréttum RÚV í gær. Heilbrigðiseftirlit Vestfjarða taldi þar bílhræ árvisst frá 2006 til 2014 og taldi þar síðast 455 bíla.

Anton Helgason, framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða, segir ekki bráða mengunarhættu stafa af hræjunum.

„2014 fór ég yfir þá bíla sem voru á staðnum og þá var búið að taka alla rafgeyma úr þeim og tæma olíu,“ segir Anton. Hann segir ekkert frekara eftirlit verið haft síðan þá.

Anton segir ekki takmörk fyrir því hvað fólk má eiga marga bíla. Starfsemi bílapartasölu er hins vegar leyfisskyld. Hann segir ekki merki um að slík starfsemi sé rekin á Garðstöðum.

„Ekki svo ég viti. Það er eitthvað um að bílar séu hlutaðir í sundur en það eru allavega engin sýnileg merki um bílapartasölu auglýst á staðnum,“ segir hann.

Súðavíkurhreppur hyggst nú breyta Garðstöðum í iðnaðarsvæði svo hægt sé að gefa leyfi fyrir bílapartasölu. Eigendur Ögurs, næsta bæjar við Garðstaði, segja það tilraun til að losa sveitarfélagið undan ábyrgð á hreinsun á landareigninni.