Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Telja byggðakvóta dreifast víðar en æskilegt þykir

23.02.2020 - 13:45
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Byggðakvóti hefur dreifst víðar en æskilegt væri að mati starfshóps sem Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, skipaði til að fara yfir meðferð og ráðstöfun byggðakvóta. Starfshópurinn bendir á að umtalsverðir hagsmunir velti á því hvernig dreifðar sjávarbyggðir eru skilgreindar og að þrýstingur stærri byggðakjarna kunni að hafa leitt til þess að byggðakvótinn hafi farið víðar en til þeirra byggða sem eru veikastar fyrir.

Þóroddur Bjarnason, formaður starfshópsins, skilaði Kristjáni Þór skýrslu hópsins fyrir skemmstu. Þar segir að full ástæða sé til þess að herða mörk og nýta byggðakvótann sem mest á stöðum sem Byggðastofnun hefur tilgreint í minnisblaði. Þar er fjallað um byggðir með undir þúsund íbúa.

Meðlimir starfshópsins leggja þó áherslu á að ekki sé eðlismunur á sjávarbyggð með 999 og 1.001 íbúa. Því væri æskilegt að láta byggðakvóta fjara út á bilinu 1.000 til 2.000 íbúar. Það mætti til dæmis gera með því að byggðakvóti byggðalags með 1.200 íbúa skertist um 20 prósent og byggðakvóti byggðalags með 1.500 íbúa um 50 prósent.

Mynd með færslu
 Mynd: Sjávarútvegs- og landbúnaðar

Starfshópurinn leggur jafnframt til að tilgangur og markmið atvinnu- og byggðakvóta verði skýrð í lögum og árangur þeirra metinn, að ótvírætt verði að 5,3 prósent aflahlutdeilda séu dregin frá heildarafla í hverri tegund áður en aflaheimildum er úthlutað á einstök skip. Þá vill hópurinn að almennum byggðakvóta verði úthlutað til sex ára og aukið svigrúm veitt til að nýta hann í samræmi við aðstæður á hverjum stað.

Í lokaorðum skýrslunnar segir að áætlað aflaverðmæti sé 5,5 til 7,6 milljarðar króna á ári hverju. Það séu mikil verðmæti og afar mikilvægt að markmiðin með úthlutun þeirra séu skýr. Skýrsluhöfundar segja mikilvægt að styrkja minnstu sjávarbyggðirnar sem hafa átt erfiðast með að aðlagast stórfelldum breytingum í íslenskum sjávarútvegi. Jafnframt eigi að stuðla að fjölbreytni og nýliðun í greininni. Þá segja höfundar að mikilvægt sé að stjórnvöld geti til skemmri tíma brugðist við óvæntum áföllum sjávarbyggða vegna breytinga í skipulagi sjávarútvegsfyrirtækja, aflabrests eða náttúruhamfara. Til lengri tíma sé hins vegar mikilvægara að skapa betri forsendur fyrir langtímaáætlanir og fjárfestingar einstaklinga og fyrirtækja í dreifðum sjávarbyggðum auk þess sem íbúar fái aukið svigrúm til að leita fjölbreyttra lausna á vanda hvers byggðarlags.