Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Telja breikkun Vesturlandsvegar auka öryggi til muna

Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Vegagerðin hefur lagt fram frummatsskýrslu um mat á umhverfisáhrifum vegna breikkunar Vesturlandsvegar á níu kílómetra kafla milli Varmhóla og vegamóta Hvalfjarðarvegar. Skipulagsstofnun úrskurðaði í fyrrasumar að framkvæmdin skyldi fara í umhverfismat. Sveitarfélög á Vesturlandi kærðu þá ákvörðun til Úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála sem vísaði kærunni frá nú í febrúar.

Vegagerðin og Reykjavíkurborg standa að verkinu. Gert er ráð fyrir að veginum verði breytt í svokallaðan 2+1 veg þar sem vegur er tvöfaldur í aðra áttina til skiptis. Einnig á að setja hringtorg á þremur stöðum, við Móa, Grundarhverfi og Hvalfjarðarveg. 

Í frummatsskýrslunni segir að framkvæmdin hafi í för með sér umfangsmikið rask á gróðri sem að stóru leyti hefur þegar verið raskað með vega-, lagna- og skurðagerð, einkum túnum og akurlendi. Gera megi ráð fyrir varanlegum neikvæðum áhrifum á gróður sem lendir undir vegum og stígum, alls um 27 hektara landsvæði.

Þá segir einnig í skýrslunni að heilt yfir séu áhrif á landslag og ásýnd talin nokkuð umfangsmikil með tilliti til umfangs svæðisins og fjölda fólks sem verði fyrir áhrifum. Áhrifin eru sögð staðbundin og að mestu afturkræf. Framkvæmdin mun ekki hafa áhrif á svæði sem njóta verndar vegna landslags eða ásýndar og mun ekki hafa neikvæð áhrif á landslag sem getið er um í markmiðum náttúruverndarlaga og skipulagslaga.

Þá segir jafnframt að á vegkaflanum séu tæplega 30 vegamót, tengingar og þveranir auk þess sem umferðin er öll á einn plús einn vegi án aðskilnaðar akstursstefna. Að meðaltali fari rúmlega níu þúsund ökutæki um veginn á degi hverjum. Aðskilnaður akstursstefna, fjölgun akreina í sömu átt, fækkun vegtenginga og bygging hringtorga séu allt aðgerðir sem dragi úr líkum á umferðarslysum. Sama gildi um uppbyggingu hliðarvega og undirganga undir Vesturlandsveg fyrir innansveitarumferð og aðra en akandi vegfarendur. Áhrif á umferðaröryggi eru metin verulega jákvæð.

Auk breikkunnar á hringvegi verða lagðir hliðarvegir og reiðstígar auk stíga fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur. Tilgangur frummatsskýrslunnar er að leggja mat á umhverfisáhrif framkvæmda og að veita
almenningi, umsagnaraðilum og öðrum hagsmunaraðilum tækifæri til að mynda sér skoðun á efnistökum umhverfismatsins og koma athugasemdum á framfæri.

Skýrslan verður kynnt á opnum fundi í Klébergsskóla á Kjalarnesi næstkomandi fimmtudag klukkan 16.  Frestur til að skila inn athugasemdum til Skipulagsstofnunnar er til og með 7. apríl.