Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Telja átt við öryggisbúnað kranans

29.09.2016 - 19:53
Mynd:  / 
Talið er að átt hafi verið við öryggisbúnað byggingarkrana með þeim afleiðingum að hann hrundi í miðbæ Reykjavíkur í dag. Tvær ungar stúlkur og pylsusali voru í lífshættu þegar kraninn skall niður rétt hjá þeim.

Mildi þykir að ekki voru fleiri við pylsustandinn þegar kraninn hrundi. Þetta var skömmu fyrir hádegi, og hádegisösin ekki byrjuð. En þar voru tvær sextán ára stúlkur, sem áttu fótum sínum fjör að launa. „Ég sá allt timbrið vera að sveiflast og svo fór það að detta út og losna og svo sá ég kranann vera að halla niður og ég öskraði á Tinnu og við hlupum í burtu og svo bara rétt fyrir aftan okkur kom kraninn niður. Og þá fórum við að gráta og hringdum á lögguna,“ segir Bryndís Arna Bridde. „Við hefðum alveg getað verið undir,“ segir Tinna Marín Sigurðardóttir.
 
Stelpunum var að vonum mjög brugðið, enda hefði vart þurft að spyrja að leikslokum ef þær hefðu orðið undir krananum. Þá er ljóst að pylsusalinn slapp með skrekkinn, en einungis munaði rúmum metra á að timburhlassið sem hékk í krananum hefði lent á pylsustandinum.

„Fólk var í lífshættu“

Kraninn er á vegum verktakafyrirtækis sem vinnur að byggingu hótels fyrir aftan pylsusöluna. Eyjólfur Sæmundsson, forstjóri Vinnueftirlitsins segir þetta grafalvarlegt atvik. Þarna hefði getað orðið stórslys og fólk hafi verið í lífshættu. „Þetta er gríðarlega alvarlegur atburður sem hefði getað valdið stórslysi og við lítum þetta ákaflega alvarlegum augum,“ segir Eyjólfur. 

Vinnueftirlitið telur að átt hafi verið við öryggisbúnað byggingakranans með þeim afleiðingum að hann hrundi og að kraninn hafi verið að lyfta mun meiri þyngd en leyfilegt er. Talið er líklegt að búnaður sem á að láta kranann slá út ef þyngdin verður of mikil hafi verið gerður óvirkur. „Það liggur nú þegar fyrir að kraninn var að lyfta mun þyngri byrði heldur en hann á að gera í þeirri stöðu sem að á að nota hann. Og það er grunur um það að öryggisbúnaður kranans, sem á að slá út ef að byrði er of þung, að hún hafi verið tekin úr sambandi,“ segir Eyjólfur. „Það er svo alvarlegt að það fá því varla orð lýst. Ef að verið er að eiga við öryggisbúnað á þessum tækjum, og ég tala nú ekki um þar sem verið er að nota þau innan um margmenni eins og þarna er. Það hefði getað farið mjög illa. Fólk var þarna í lífshættu.“

 Lögreglan fer nú með rannsókn málsins.