Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Telja að uppsögn húsvarðar ógni öryggi

15.05.2019 - 13:25
Mynd með færslu
 Mynd: Jón Þór Kristjánsson - RÚV
Megn óánægja er með skipulagsbreytingar í Dalvíkurbyggð sem fela í sér að húsverði grunnskólans er sagt upp störfum. Starfsfólk telur að öryggi nemenda sé ógnað. Sveitarstjórinn segir að mótmælin séu skiljanleg, en ákvörðunin standi. 

Sveitarstjórn samþykkti í apríl að leggja niður fjögur stöðugildi, þar á meðal starf húsvarðar Dalvíkurskóla. Í staðinn verður stofnuð ný deild, eigna- og framkvæmdadeild, sem annast viðhald allra stofnana. 

Mikilvægur hlekkur í starfseminni

Í bréfi frá 39 starfsmönnum Dalvíkurskóla til yfirvalda er þessu mótmælt harðlega og er uppsögn húsvarðar sögð ófagleg og illa ígrunduð. Elmar Sindri Eiríksson, kennari í Dalvíkurskóla, segir að hátt í 300 nemendur og starfsfólk geti ekki verið án húsvarðar, sem gegni miklu fleiri verkefnum en starfslýsing kveður á um og sé í raun gífurlega mikilvægur hlekkur í allri starfsemi skólans. „Það eru lausar borðplötur og ljós gætu verið að hrynja úr loftinu og maður spyr sig að því, finnst yfirvöldum sveitarfélagsins allt í lagi að börnin okkar séu jafnvel ekki örugg í skólanum vegna þess að hér eru hlutir jafnvel farnir að drabbast niður,“ segir Elmar. 

Í bréfinu, sem meginþorri starfsfólks skrifar undir, er því velt upp hver sinni í framhaldinu ýmsum verkefnum sem húsvörður hafi tekið að sér, til dæmis að moka frá inngöngum, halda umhverfi skólans hreinu, undirbúa viðburði, keyra slösuð börn til læknis í flýti, panta hreinlætisvörur og fleira. „Skólastarf er í grunninn vinnustaður þar sem bregðast þarf skjótt og örugglega við þegar upp koma atvik að öllu tagi,“ segir í bréfinu. 

Skilur áhyggjur starfsfólks

„Það komu hörð mótmæli frá Dalvíkurskóla og þau eru bara mjög skiljanleg,“ segir Katrín Sigurjónsdóttir, sveitarstjóri í Dalvíkurbyggð. „Þetta er svona stöðugildi sem hefur verið mjög vel nýtt til annarra hluta líka en eiginlegrar umsjónar með mannvirkinu. Ég skil bara mjög vel að starfsfólk Dalvíkurskóla og notendur stofnunarinnar séu svekktir að missa það,“ segir Katrín.  Hins vegar séu góð og gild rök fyrir þessum skipulagsbreytingum. Fyrst og fremst er horft til þess að auka skilvirkni þjónustu, að því er fram kemur á vef Dalvíkurbyggðar, fremur en að hagræða í rekstri sveitarfélagsins. 

Mynd með færslu
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson - RÚV
Katrín Sigurjónsdóttir

Horfa til annarra sveitarfélaga

Katrín segir ekki koma til greina að endurskoða ákvörðunina. Hún hafi verið tekin að vandlega ígrunduðu máli. „Ég vil nú bara trúa því að nýja eigna- og framkvæmdadeildin taki vel á umsjón fasteigna hjá okkur. Það eru nokkur sveitarfélög þannig að þau eru ekki með húsvörð heldur eru þau með eignasjóði sem sjá um viðhald eignanna,“ segir Katrín. Veistu hvernig reynslan hefur verið af því? „Hún hefur bara verið góð,“ segir Katrín. 

Elmar segir óviðunandi að þurfa að senda beiðni á miðlæga deild í hvert sinn sem eitthvað þarf að laga eða gera. „Þetta lítur rosalega vel út á excel skjali af því að þetta hefur hentað öðrum en við hvaða fólk hefur hún talað? Stjórnendur annarra sveitarfélaga? Hún hefur ekki talað við fólkið á gólfinu sem upplifir þetta á hverjum einasta degi,“ segir Elmar. 

jonthk's picture
Jón Þór Kristjánsson
Fréttastofa RÚV