Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Telja að um 15% stórtækra svíki undan skatti

Mynd með færslu
 Mynd: Arnhildur Hálfdánardóttir
Ríkisskattstjóri áætlar að um 15% þeirra sem fara mikinn á Airbnb, leigja út fimm eignir eða fleiri, svíki undan skatti. Umfang skattsvika sé meira hjá þeim sem leigja út færri eignir. Yfir 70% þeirra sem leigja út heimili sín á Airbnb eru án tilskilinna leyfa, þrátt fyrir að leyfisveitingarferlið hafi verið einfaldað. 

Airbnb greiði skatta hér

Í nýlegri skýrslu Landsbankans um ferðaþjónustu á Íslandi kemur fram að líklega gisti allt að helmingur ferðamanna sem dvelur á höfuðborgarsvæðinu í íbúðum sem þeir leigja á Airbnb. Veltan í Reykjavík nam í fyrra 6,1 milljarði. Ásóknin í Airbnb-gistingu hefur aukist mun meira en ásókn í hótelgistingu og ljóst er að útleiga á íbúðum hefur haft mikil áhrif á húsnæðismarkaðinn. Í þeirri skýrslu kemur líka fram að um 15% af gistikostnaði fari beint til Airbnb í formi þóknana, tæpur milljarður, og óvíst sé hvort Airbnb greiði nokkurn skatt af þeirri upphæð, sömuleiðis ríki mikil óvissa um hversu hátt hlutfall tekna er gefið upp til skatts. Lögmaður Airbnb á Íslandi sem hefur séð um virðisaukaskattskil fyrir Airbnb á Íslandi, fullyrðir að félagið greiði skatt af þjónustutekjum sem það fær héðan. 

Ríkisskattstjóri með virkan gagnagrunn

Spegillinn fór á fund Ríkisskattstjóra. Starfsmenn embættisins hafa skráð allar eignir sem leigðar eru út á Airbnb, Booking.com og fleiri bókunarsíðum og sett inn á kort sem uppfært er vikulega með upplýsingum um hversu stór hluti eigna er í virkri útleigu. Í lok ágúst voru notendur 4163, þar af rúmlega þúsund með fleiri en eitt gistirými. Starfsmennirnir telja sig því hafa góða mynd af umfangi útleigunnar og því hverjir standa að henni. Ekki er þó alltaf hægt að bera kennsl á gestgjafa eða hvar á landinu eignirnar sem leigðar eru út eru. Starfsmenn ríkisskattstjóra hafa greint sérstaklega 100 einstaklinga sem leigja út fimm eignir eða fleiri. „Þá er þetta orðinn raunverulegur atvinnurekstur og þar gerum við ákveðnar kröfur til þessara aðila um færslu bókhalds og þess háttar og þá kemur í ljós að um 15% þeirra sem voru í úrtakinu og eru með flestar íbúðir hafa ekki verið með sína hluti í lagi.“

Mynd með færslu
 Mynd: Tom Slee - RÚV

Ýmsar aðferðir við framtal

Þá er afar mismunandi hvernig þeir stórtækustu telja fram. Heilt yfir er algengast að þeir sem leigja út á Airbnb telji fram sem einstaklingar, þannig var Airbnb ætlað að virka. Þetta á við um 3% þeirra stórtækustu. Hjá þeim var algengast að Airbnb-tekjurnar færu í gegnum félag í beinni eða óbeinni eigu gestgjafans, þetta átti við um 44% þeirra stórtækustu. Félagið gjaldfærir þá oft kostnað vegna leigu á fasteign eiganda félagsins. Algengasta fyrirkomulagið hjá þeim sem eru með flestar eignir, tugi jafnvel, er þannig að eitt eða fleiri félög eru skráð eigandi fasteigna og annað félag eða félög sjá um reksturinn, leigja af eignarhaldsfélögunum. 

Undanskot algengari hjá þeim sem leigja út fáar eignir

Skúli telur að hlutfall undanskota sé hærra hjá þeim sem leigja út færri en fimm eignir, Gunnu og Jóni, sem leigja út blokkaríbúðina og sumarbústaðinn. Hann getur þó ekki nefnt neina ákveðna prósentu í þessu samhengi. 

Skatturinn fær upplýsingar frá fyrirtækjunum

Hann segir að oft dragi þeir sem svíkja undan skatti þá ályktun að Airbnb og aðrar bókunarsíður veiti skattayfirvöldum hér engar upplýsingar. „En þar er fólk oft á villigötum vegna þess að við fáum ýmsar upplýsingar erlendis frá, getum fengið upplýsingar um umfang viðskipta í gegnum milligönguaðila. Það breytir því ekki að við teljum, að til þess að geta haft betri kontról á þessu öllu saman, þurfum við meiri lagaheimildir.“

Í hnotskurn er meginvandi Ríkisskattstjóra hversu erfitt getur verið að átta sig á því hver er á bak við skráningu á Airbnb, það er ekki endilega gefið upp símanúmer eða rétt nafn og bókunarfyrirtækið afhendir ekki persónurekjanleg gögn. 

Vill að lögum verði breytt

Ríkisskattstjóri segist nýlega hafa gert settum fjármála- og forsætisráðherra grein fyrir þeirri afstöðu sinni að breyta þyrfti lögum til að auðvelda eftirlit og skattheimtu. Umboðsmenn fyrirtækjanna hér á landi verði að veita yfirvöldum sundurliðaðar upplýsingar til að skattayfirvöld geti sannreynt að leigjendur telji rétt fram tekjur frá Airbnb, það verði skilyrði fyrir því að fyrirtækið geti verið með starfsemi hér. Þessir umboðsmenn, sem oftast eru lögmenn, sjá um að skila skatti af þjónustutekjum sem Airbnb fær vegna fasteigna sem leigðar eru út í gegnum síðuna hér á landi. 

„Við þurfum að fá betri upplýsingar frá þeim. Umboðsmenn segjast ekki vita hver heildarviðskiptin séu eða við hverja, bara hversu miklum skatti fyrirtækin eigi að skila á Íslandi. Við teljum að það þurfi að bæta því inn í lög hér á landi að skattayfirvöld geti fengið þessar upplýsingar afdráttarlaust og án undanbragða.“

Skúli segir ljóst að ríkið verði af milljarða tekjum vegna skattaundanskota í ferðaþjónustu en segist ekki geta slegið neinu föstu um hversu umfangsmikil skattaundanskot þeirra sem leigja út í gegnum Airbnb eru. 

Airbnb vísar til mannréttindaákvæða

Lögmaður Airbnb, segir að Airbnb hyggist taka til greina að veita upplýsingar um ákveðna aðila óski ríkisskattstjóri eftir því. Fyrirtækið telji sig ekki geta sent honum skrá yfir alla þá sem leigja út á Airbnb hér á landi og vísi til 8. greinar Mannréttindasáttmála Evrópu um friðhelgi einkalífs. En hvað ef lögunum verður breytt? Lögmaðurinn segir ekki ljóst hvort hugmyndir ríkisskattstjóra að lagabreytingu uppfylli jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Það sama verði að ganga yfir alla, sé þá hægt að taka nokkur erlend bókunarfyrirtæki út fyrir sviga? 

Nýtt og einfaldara kerfi

Í byrjun þessa árs tók gildi breyting á lögum um heimagistingu, með þeim átti að einfalda kerfið og auðvelda eftirlit. Útleigunni eru sett skýr mörk. Það má leigja út í mesta lagi tvær eignir og báðar þurfa að vera í eigu þess sem leigir út. Ekki má leigja eignirnar út í meira en 90 daga samtals og samanlagðar tekjur af leigu eignanna mega ekki fara yfir tvær milljónir á ári. Útleigan er skráningarskyld. Sá sem leigir út þarf að skrá sig hjá sýslumanni og skila yfirliti árlega. Við skráningu þarf að staðfesta að húsnæðið uppfylli kröfur um brunavarnir og sé samþykkt íbúðarhúsnæði. Fyrst um sinn þurfti líka að sækja um starfsleyfi hjá heilbrigðisnefndum en það ákvæði var afnumið í sumar og við það lækkaði kostnaður við skráningu talsvert. En breytti þetta einhverju? Er búið að koma einhverjum böndum á Airbnb-frumskóginn? 

Mynd með færslu
 Mynd: airbnb skjáskot

Tæplega þúsund skráðir en einhverjar skráningar gamlar

Nú eru tæplega þúsund gestgjafar skráðir í gagnagrunn sýslumannsembættanna, heimagisting.is, um helmingur þeirra leigir út eignir á höfuðborgarsvæðinu, hinn helmingurinn á landsbyggðinni. Einhverjir hafa skráð sig á þessu ári, en þar eru líka skráðir þeir sem höfðu aflað sér rekstrarleyfis áður en lagabreytingin tók gildi. Sigurður Hafstað, hefur umsjón með eftirliti sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu. Hann segir að skráningum hafi fjölgað í sumar eftir að skylda til að sækja um leyfi frá heilbrigðisnefndum var felld niður. „Það má segja að með niðurfellingu starfsleyfisskyldu frá heilbrigðisnefndum hafi markmiðum laganna um einföldun að einhverju leyti verið náð,“ segir Sigurður. Fjölgunin sé vísbending um að fólk vilji gera þetta í samræmi við gildandi lög. Það sé líka einfalt að skrá starfsemina. „Þessi málaflokkur hefur verið í þróun og menn hafa ekki séð fyrir þennan gífurlega fjölda og aukningu í rekstri af þessum toga en mín tilfinning er sú að hlutfall óskráðrar starfsemi sé að minnka en það gæti enn verið yfir 70%.“ Áður hafi hlutfall óskráðra verið um 85%.

Íþyngjandi úrræðum aldrei beitt

Hann segir að það standi til að stórefla eftirlit með heimagistingu en hingað til hafi einungis verið brugðist við ábendingum frá almenningi og öðrum eftirlitsaðilum. Nú eigi að leggja aukna áherslu á frumkvæðiseftirlit og fjölga í eftirlitsteyminu. Eitthvað hefur verið um að embættið sendi bréf, hvetji fólk til að skrá sig, Sigurður segir fólk þá ýmist skrá sig eða leggja upp laupana. Sýslumannsembættin geta lagt stjórnvaldssektir á þá sem reka heimagistingu án leyfis en það hefur ekki verið gert. Sigurður segir þó fyrirséð að þeim verði beitt í auknum mæli í framtíðinni.

Sýslumaðurinn hefur einungis eftirlit með heimagistingu, ef íbúð er leigð út í meira en 90 daga eða tekjur eru meiri en 2 milljónir á ári er starfsemin rekstrarleyfisskyld og eftirlit í höndum lögreglu, ekki sýslumanns, þarna á milli er ákveðin skörun. Sýslumaðurinn rekur sig á sömu hindranir og Ríkisskattstjóri, það hversu erfitt getur verið að leiða í ljós hver rekur starfsemina. 

Vill milliflokk, 90 daga reglan henti ekki öllum

 

Sölvi Melax er formaður hagsmunasamtaka fólks sem stendur í skammtímaútleigu. Hann segir 90 daga og tveggja milljóna mörkin sem skilgreind eru í lögunum henta ákveðnum hópi, svo sem þeim sem vilja leigja út íbúðina sína á meðan þeir fara til útlanda í frí. Flestir vilji leigja í lengri tíma og hafa meira upp úr krafsinu. Lögum samkvæmt eru þeir komnir í atvinnurekstur og þurfa að fá leyfi skipulagsyfirvalda. Sölvi segir að sveitarfélög vilji sjaldnast veita leyfi fyrir hótelrekstri í íbúðahverfum. 

„Þannig að allir sem eru að leigja í meira en 90 daga eru ekki að sækja um þetta leyfi og finna sér ekki stað í kerfinu.“

Þá segir hann mikið hafa verið hringlað með reglurnar. Sum sveitarfélög fari ekki að lögunum, hækki fasteignagjöld á þá sem leigja eignir í innan við 90 daga þó það eigi ekki að gera. „Það er ýmislegt í kerfinu sem er ekki að ganga eins smurt og það ætti að ganga og þegar yfirvöld segja að þetta sé einfalt þá er það oft ekki svo. Ef fólk ætlar að leigja húsið sitt í nokkrar vikur, þarf það að fara að leggja margra klukkutíma rannsóknarvinnu í það hvort það þarf að sækja um leyfi, hvaða áhrif hefur það?“

„Skrítið að sömu reglur gildi í 101 og á Vestfjörðum“

En eru þetta ekki rökin sem þeir sem standa í skammtímaleigu koma alltaf til með að nota, hvað sem ríkisvaldið gerir? Þeirra hagur er að leigja íbúðirnar út í sem lengstan tíma og fá sem mest upp úr krafsinu. 

„Ég sit hér sem fomaður Samtaka um skammtímaleigu á heimilum. Við erum að ýta undir það að fólk fái meira svigrúm til að leigja út sín heimili. Við erum með ein ströngustu lög sem til eru, sérstaklega miðað við þau lönd sem við berum okkur saman við, Norðurlöndin og alls staðar þar sem er verið að tala um einhvern 90 daga fjölda þá er það aldrei á landsvísu, heldur ákveðin svæði. Ef það er verið að tala um dæmi þar sem eru svipuð lög þá er verið að tala um Amsterdam, Berlín, Barselóna, London. Þetta eru alltaf stórborgir og það væri kannski eðlilegt að setja svona reglur á takmörkuðum svæðum í 101 Reykjavík en að það séu sömu reglur í miðborg Reykjavíkur og á Vestfjörðum, það er rosalega skrítið.“

Kerfið ýti fólki í að sækja ekki um leyfi

Hann segir að það þurfi milliflokk fyrir fólk sem vill leigja út lengur en í 90 daga. Þá eigi að sækja um rekstrarleyfi en skipulagsyfirvöld segi alltaf nei. Sölvi segir að svo virðist sem yfirvöld viti ekki alveg hvert þau vilji stefna enda markaðurinn að breytast hratt. Hann segir að margir sem voru í gamla heimagistingarkerfinu eigi eftir að fá neitun þegar leyfi þeirra rennur út á næstu árum. „Í gamla kerfinu máttirðu leigja út allt árið, nokkur herbergi. Ýmsir aðilar sem voru í bændagistingu, mörg svona lítil gistiheimili, sérstaklega í Hlíðunum. Kerfið er bara að ýta þeim út í að loka sínum rekstri eða gera þetta án þess að vera með leyfi.“

Segir það hag heildarinnar að setja leigunni skorður

Ólöf Örvarsdóttir, sviðsstjóri umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkurborgar, segir markmið laganna skýrt,  90 daga reglan veiti fólk hellings svigrúm til útleigu og það sé hagur heildarinnar að setja skammtímaútleigu skorður. Ef leigt er út í meira en 90 daga telst það starfsemi og hún þarf að vera í samræmi við skipulag. Í aðalskipulagi sé meginreglan sú að hún sé leyfð við aðalgötur í hverfum, séu ekki skilmálar um annað í deiliskipulagi, en ekki inni í íbúðahverfum. Þannig fengist sennilega leyfi fyrir íbúðagistingu á Hofsvallagötu í Vesturbæ en ekki á Grenimel.

Útlit fyrir að minni íbúðir losni á næstu árum

Hún segir útlit fyrir að á næstu árum losni einhverjar minni íbúðir miðsvæðis í Reykjavík vegna þess að leyfin renna út. Borgin hefur ekki kortlagt hversu margar íbúðir þetta eru.