
Telja að tilmælum UST hafi verið fylgt
Sérfræðingar kortlögðu svæðið fyrr í vikunni
„Við höfum nú þegar farið í þessar rannsóknir og vorum með hóp sérfræðinga, á vegum Vesturverks og VERKÍS, á staðnum í fyrradag sem kortlögðu svæðið mjög vel,“ segir Birna Lárusdóttir, upplýsingafulltrúi Vesturverks. Þær niðurstöður verði svo hafðar til hliðsjónar í þeirri vinnu sem er fram undan. Þar af leiðandi hafi verið farið að tilmælum Umhverfisstofnunar.
Birna segir að í fljótu bragði virðist steingervingarnir ekki hafa mikil áhrif á fyrirætlanir Vesturverks. Komi annað í ljós fari fyrirtækið þó að lögum í þessu sem og öðru.
Kortlagning ætti að koma í veg fyrir röskun steingervinga
Eftir að hafa fengið svör frá Árneshreppi og Vesturverki í ágúst sendi Umhverfisstofnun þeim leiðbeiningar. Stofnunin taldi að kortleggja þyrfti nákvæmlega steingervinga á svæðinu. Með því ætti að vera hægt að haga svæðinu þannig að tryggt yrði að steingervingum yrði ekki raskað. Þá óskaði stofnunin eftir niðurstöðum úr kortlagningunni.
Umhverfisstofnun óskaði einnig eftir afriti af þeim tilmælum sem sveitarfélagið hyggst gefa Vesturverki til að tryggja að framkvæmdir raski ekki steingervingum. Stofnunin vilji vita hvernig sveitarfélagið og verktakar ætli að bregðast við, segir Hildur Vésteinsdóttir, teymisstjóri á sviði friðlýsinga og starfsleyfa hjá Umhverfisstofnun. Það sé á ábyrgð sveitarfélagsins og Vesturverks að tryggja að steingervingunum verði ekki raskað.
Nýjustu tilmæli Umhverfisstofnunar um kortlagningu svæðisins hafa ekki verið tekin fyrir í hreppstjórn Árneshrepps. Guðlaugur Agnar Ágústsson varaoddviti segist gera ráð fyrir því að málið fari fyrir hreppstjórn á næsta fundi sveitarfélagsins á miðvikudag.
Aldrei fleiri trjáholur fundist á svo litlu svæði
Steingervingarnir, trjáholur í bergi, bera vitni um skóg sem þarna stóð fyrir milljónum ára. Steingervingar eru verndaðir samkvæmt náttúruverndarlögum. Trjáholurnar uppgötvuðust fyrr í sumar á svæði sem þarf að fara um við virkjanaframkvæmdirnar. Rannsókn leiddi í ljós að aldrei hefðu fundist jafn margar trjáholur í bergi á svo litlu svæði. Það varð til þess að meta þurfti hvaða áhrif uppgötvunin hefði á fyrirhugaðar framkvæmdir.
Áður hefur Birna sagt að Vesturverk muni hnika til vegslóðum, ef þess þurfi, vegna steingervinganna.
Fyrirtækið, sem reisir Hvalárvirkjun á Ströndum, hefur unnið að vegagerð í Ingólfsfirði undanfarið, og mætt nokkurri andstöðu minnihluta eigenda jarðarinnar Seljaness. Til þess að komast að ósum Hvalár, sem á að virkja, þarf að aka landleiðina um Ingólfsfjörð fyrir Seljanes og inn í Ófeigsfjörð.