Athugið þessi frétt er meira en 11 ára gömul.

Tekur nokkur ár að greiða allt

07.12.2011 - 18:12
Mynd með færslu
 Mynd:
Þrotabú Landsbankans greiddi í dag rúma 350 milljarða króna inn á icesave skuldina við Breta og Hollendinga. Þetta er fyrsta stóra greiðslan út úr búinu. Það getur tekið nokkur ár að greiða út allt fé þrotabúsins.

Bretar og Hollendingar fengu í dag 352 milljarða greidda vegna Icesave út úr þrotabúi Landsbankans. 266 milljarðar far til breska innstæðutryggingasjóðsins og 88 milljarðar til þess hollenska. Þetta þýðir að búið er að gera upp um þriðjunginn af Icesave. Um 75 milljarðar fara inn á svokallaða geymslureikninga vegna annarra mála sem enn á eftir að klára og þrír milljarðar fara í að greiða ýmsar minni kröfur. Samanlagt voru því 432 milljarðar greiddir út úr þrotabúi Landsbankanss í dag.

Megnið af fénu var á reikningum bankans annars staðar en á Íslandi og því ætti greiðslan ekki að hafa nein sérstök áhrif á gjaldeyrisforða Íslendinga, gengi krónunnar eða efnahagsmál hér, segir Halldór Bachman, sem situr í slitstjórn Landsbankans. Enn sé þó langt í land með að uppgjöri búsins sé lokið.

„Við viljum endilega koma fjármununum til þeirra sem eiga þá. Þetta mun taka einhver ár í viðbót, hversu mörg, getum við hreinlega ekki sagt til um ennþá,“ segir Halldór. „Við litum svo á, og teljum okkur hafa rétt fyrir okkur í því, að hinkra eftir niðurstöðu Hæstaréttar Íslands um forgang innstæðukrafna. Sú niðurstaða lá fyrir um mánaðarmótin október nóvember. Síðan fór í hönd umtalsvert flókinn undirbúningur að þessum hlutagreiðslum og við sáum enga ástæðu til að bíða að óþörfu. Við greiddum hreinlega út þegar var búið að fara yfir allt sem þurfti að fara yfir og undirbúa greiðslurnar.“