Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Tekur ekki við landsliðinu vegna búsetu

Mynd með færslu
 Mynd: fotbollsgalan - RÚV

Tekur ekki við landsliðinu vegna búsetu

28.09.2018 - 12:20
Leit stendur nú yfir að næsta þjálfara íslenska kvennalandsliðsins í fótbolta. Elísabet Gunnarsdóttir, þjálfari Kristianstad í Svíþjóð, staðfesti í samtali við íþróttadeild RÚV að KSÍ hefði haft samband við hana.

Elísabet hefur verið búsett í Svíþjóð undanfarin ár en hún tók við sem þjálfari Kristianstad í sænsku úrvalsdeildinni árið 2009. Hún segir í samtali við RÚV að hún sé ekki tilbúin að flytja til Íslands á þessum tímapunkti.

Freyr Alexandersson hætti sem þjálfari kvennalandsliðsins eftir undankeppnisleikina fyrir HM fyrr í þessum mánuði og hefur leit staðið yfir að nýjum þjálfara landsliðsins undanfarnar vikur. Elísabet hefur oft verið nefnd til sögunnar sem arftaki Freys en hún hefur náð góðum árangri með Kristianstad undanfarin ár. Þá var hún valin þjálfari ársins í sænsku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð. 

Elísabet segir að í samtali hennar við KSÍ hafi komið fram að það væri æskilegt að landsliðsþjálfari íslenska landsliðsins væri búsettur hér á landi. Séu þetta kröfur KSÍ verður Elísabet ekki næsti þjálfari landsliðsins. 

„Síðan voru að sjálfsögðu önnur atriði sem ég þurfti að vega og meta en niðurstaðan var að gefa þennan möguleika frá mér. Það er að sjálfsögðu draumastarf fyrir íslenskan þjálfara að taka við landsliðsþjálfarastarfinu. Vonandi kemur tækifærið aftur seinna og vonandi fær KSÍ til starfa metnaðarfullan þjálfara sem kemur liðinu á góðan stað,“ segir Elísabet í samtali við RÚV í dag.