Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Tekjur Vaðlaheiðarganga voru 290 milljónir undir áætlun

29.01.2020 - 18:24
Mynd með færslu
 Mynd: Ágúst Ólafsson - RÚV
Tekjur Vaðlaheiðarganga voru um 290 milljónir undir áætlun á síðasta ári, samkvæmt bráðabirgðatölum. Rekstur fyrsta árs stendur undir um 500 milljón króna greiðslu til lánveitenda. Stjórnarformaður segir ýmislegt í skoðun hvað varðar framhaldið, bæði varðandi þjónustu og tekjur.

Bráðabirgðatölur vitna um að tekjur Vaðlaheiðarganga á síðasta ári hafi verið 680 milljónir, áætlanir gerðu ráð fyrir um 970 milljónum. Hilmar Gunnlaugsson, stjórnarformaður Vaðlaheiðarganga, segir tap á rekstri félagsins, vextir af lánum hafi verið áætlaðir yfir 850 milljónir.

Borga 500 milljónir til baka í ríkissjóð

Það sé hins vegar ekki verið að tapa peningum á rekstrinum, það sé fjármunamyndun og um 500 milljónir skili sér til baka í ríkissjóð eftir fyrsta árið; „Auðvitað hefði verið æskilegt að þetta hefði staðið undir sér þrátt fyrir allan þennan aukakostnað, en menn meiga ekki gleyma því að þarna eru að myndast peningar og ef að vextir væru 2.5% en ekki yfir 5% þá værum við að standa undir afborgunum og lánum“. Framkvæmdin hafi verið dýr og nánast allt byggt fyrir lánsfé með háum vöxtum. Hann telur þeirra reynslu af gjaldtöku góða, kerfið virki vel og margt sem sé hægt að læra af því sem þjóð.

Renndu blint í sjóinn 

Lægri tekjur skýrast af minni umferð og lægra meðalverði á ferð heldur en reiknað var með. Þá hafi ýmislegt áhrif eins og bakslag í ferðaþjónusu. Hann segir nýja rekstraráætlun og breytingar taka mið af útkomu síðasta árs; „Við renndum auðvitað blint í sjóinn þegar við gerðum okkar áætlun og höfum lært mikið af þessu eina ári sem nú er liðið“. Það sé ýmislegt í skoðun hvað varðar framhaldið og margt hægt að bæta, bæði varðandi þjónustu og tekjur. 

Engin ákvörðun tekin um breytingu á gjaldskrá

Hann telur hina almennu umræðu um göngin jákvæða hjá þeim sem séu hvað næst þeim en umfjöllun fjölmiðla sé oft óþarflega neikvæð. Hann telur fólk þó almennt átta sig á því hversu mikil samgöngubót göngin séu, og hveru mikið öryggi þau séu fyrir íbúa á svæðinu. Margir hafi skoðanir á einstaka atriðum, til dæmis gjaldtöku. Allir vilji borga minna í göngin og sumir þurfi að nota göngin svo mikið að jafnvel þó þeir greiði lægsta gjald þá sé það mjög há fjárhæð.

Hann segir gjaldskrána í skoðun, en engin ákvörðun um breytingar hafi verið tekin; „Það er tvímælalaust ástæða til að vera með þetta í stöðugri endurskoðun, en okkar hlutverk sem sitjum í stjórn í þessu félagi er ekki bara samfélagshlutverkið heldur líka að reyna að tryggja eins og hægt er að lánveitandinn fái fjármuni til baka“.