Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Tekjumissir vegna lægra verðs til íslenskra fiskiskipa

29.01.2020 - 08:01
Mynd: Jónína G. Óskarsdóttir / Jónína G. Óskarsdóttir
Mynd með færslu
 Mynd: Jónína G. Óskarsdóttir
Formaður Félags vélstjóra og málmtæknimanna segir að yfirvöld þurfi að krefjast skýringa á því af hverju útgerðir greiði oft hærra verð til erlendra skipa sem landa hér heldur en íslenskra. Dæmi séu um mikinn verðmun milli skipa sem landi hjá sama fyrirtækinu, afla úr sömu torfunni.

Guðmundur Helgi Þórarinsson sagði í Morgunútvarpinu í morgun að norskt skip sem landaði kolmunna hér á landi í mars í fyrra hafi fengið um 43% hærra verð fyrir aflann en íslensk skip sem lönduðu sama dag. Íslensku skipin tvö hafi fengið 25,17 krónur á kíló fyrir sinn farm, en norska skipið 36,07 krónur á kíló fyrir sinn kolmunna.  

„Þetta hefur ekki bara áhrif á okkar kjör, heldur alla keðjuna. Hafnarsjóðirnir verða af tekjum, bæjarsjóðirnir verða af útsvari og ríkissjóður af sköttum og auðlindagjöldum. Þessi mikli verðmunur sem er þarna, er þetta eðlilegt?“ spyr Guðmundur.

Hann bendir á að kjarasamningar sjómanna eigi að tryggja þeim hæsta gangverð, og ekki lægra en útgerðarmaður fær fyrir sinn hlut. 

„Ef útgerðin getur greitt 36 krónur til Norðmanna, er eðlilegt að hún geti ekki greitt nema 25 krónur til Íslendinga? Ég er eiginlega hissa á því að ekki sé búið að krefjast skýringa á þessu. Menn halda að þetta snúist bara um tekjur sjómanna, en það er ekki svo. Það eru fleiri en við farnir að spyrja hvort þetta sé eðlilegt,“ sagði Guðmundur.

Félag vélstjóra og málmtæknimanna hefur hafið samningaviðræður við Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, en meðal þess sem félagið krefst í kjaraviðræðunum er meira gagnsæi á fiskiverði. 

Mynd með færslu
 Mynd: Mynd: VM
Guðmundur Helgi Þórarinsson
andriyv's picture
Andri Yrkill Valsson
Fréttastofa RÚV