Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Tekist á um sjaldgæfa málma

06.11.2019 - 16:09
Mynd með færslu
 Mynd: Agricultural Research Service
Orkuskipti - hrein orka - rafvæðing bílaflotans - minni kolefnislosun. Þetta virðast bæði góð og þörf verkefni - bráðnauðsynleg jafnvel til að stemma stigu við þeim ógnvænlegu loftslagsbreytingum sem þegar eru farnar að eiga sér stað. Þótt orkan sé endurnýjanleg, eða eigi að vera það, þá er ekki sömu sögu að segja um alla þá sjaldgæfu málma sem eru notaðir til að framleiða rafbíla, sólarrafhlöður og vindmyllur. Vinnsla málmanna er orkufrek og getur valdið mengun og alvarlegum umhverfisspjöllum.

Bara rafbílar frá 2025

Frá og með árinu 2025 eiga allir bílar frá sænska bílaframleiðandanum Volvo að vera með rafmagnsmótor.

Þessi misserin rísa gríðarstór vindorkuver víða í Svíþjóð. Og sænska ríkið tók fyrir nokkru upp á því að niðurgreiða rafmagnshjól og líka sólarrafhlöður sem hægt er að setja á húsþök. Allt þetta vonast fólk til að dragi úr koltvísýringslosun og vinni gegn því sem margir líta á sem stærstu ógn vorra tíma: Loftslagsbreytingunum.

Sjaldgæfir málmar nauðsynlegir

En ný tækni kallar oft á ný hráefni. Og síðustu árin hafa svokallaðir sjaldgæfir málmar orðið æ mikilvægari og dýrari. Þessir málmar, sem heita framandi nöfnum á borð við vanadín, gallín og lútenín, eru að ein forsenda orkuskipta. Málmarnir eru nauðsynlegir fyrir sólarrafhlöður, rafbíla, vindmyllur og margt, margt fleira. 

Hér í Svíþjóð er mikið af þessum sjaldgæfu málmum. Í Svíþjóð er mikið um málma í jörðu og rík hefð fyrir námavinnslu allt aftur til víkingaaldar.  - hvort sem það er blý, kopar, gull, silfur eða hin gríðarmikla járnvinnsla  í Norður-Svíþjóð. Það er jafnvel talið að í Svíþjóð sé að finna einhverjar mestu vanadín-námur í heimi. 

Leit að hefjast í Svíþjóð

Vanadín er málmur sem meðal annars er notaður í batterí og sem íblöndunarefni í stál. Fram til þessa hefur málmurinn aðallega verið unninn úr jörðu í austanverðu Rússlandi, Norðaustur-Kína og Suður-Afríku. En vandadín hefur hækkað mjög í verði og nú hefur breskt fyrirtæki fengið rannsóknarleyfi í Suður-Svíþjóð - til að leita að vanadíni, en líka sinki, gulli og silfri, kopar og járni.

Svæðið sem á að rannsaka kallast Österlen og er þekkt fyrir mikla náttúrufegurð. Forsvarsmenn fyrirtækisins Scandivanadium segja að fyrirhuguð námavinnsla eigi ekki að valda miklum skaða á umhverfinu. Og auk þess sé það bráðnauðsynlegt að vinna málminn til að auðveld orkuskipti og þeir segja að það sem fyrst og fremst drífi þá áfram séu áhyggjur þeirra af loftslagsbreytingum.

Ekki allir eins hrifnir

Íbúarnir eru ekki jafn spenntir fyrir námavinnslunni. Þeir segja matvælaframleiðslu mikilvægari en námavinnslu, sem auk þess kunni að ógna mikilvægum vatnsbólum. Bændur, stjórnmálamenn, greifar, nunnur - allir virðast vera á móti fyrirhugaðri námavinnslu. En engu að síður hefur Scandivanadium fengið rannsóknarleyfi á svæðinu.

Víða í Mið- og Suður-Svíþjóð eru gamlar námur, sem teknar hafa verið úr notkun. En nú horfa menn hýru auga til þeirra, enda er í sumum þeirra verulegt magn sjaldgæfra málma. Og þótt koparinn, gullið eða silfrið hafi verið numið úr námunum, má þar finna málma sem verða sífellt verðmætari. Sjaldgæfa málma er einig að finna í úrgangi frá námavinnslu í hinum gríðarmiklum járngrýtisnámum í Kiruna, nyrst í Svíþjóð. Námafélag sænska ríkisins áformar nú að fara að vinna þessa sjaldgæfu en verðmætu málma úr úrganginum.

Það er þó mjög umdeilt að hefja aftur námavinnslu í gömlum námum. Náttúruverndarsamtök og sveitarfélög víða eru full efasemda og óttast að áformin ógni náttúruverndarsvæðum og vatnsbólum.

12.500 tonn til að vinna kíló

Námavinnsla veldur nefnilega ekki bara ytri skaða á náttúrunni - vegna þess að jörð er grafin upp eða borað í hana. Námavinnslan er bæði orkufrek og mjög mengandi mengandi vegna þess hvað þessir sjaldgæfu málmar eru í litlu magni í jörðinni. Þannig þarft til dæmis að brjóta átta og hálft tonn af bergi til að vinna eitt kíló af vanadíni. Og 12.500 tonn til að vinna kíló af lúteníni. Því verður til mikill úrgangur við námavinnsluna. Og stundum er hann blandaður þungmálmum eða jafnvel geislavirkum efnum sem hætta er á að komist út í umhverfið.

Hér í Svíþjóð telja engu að síður margir að það sé þó skárra að vinna málmana í Svíþjóð, þar sem til staðar eru reglur um náttúruvernd, mengunartakmarkanir og vinnuvernd; heldur en í Kína. 

Getur valdið mikill mengun

Sérstaklega eftir umfjöllun útvarpsþáttarins Prilarnas pris í sænska ríkisútvarpinu. Fréttamaður sænska ríkisútvarpsins gerði sér ferð til Norðaustur-Kína, þar sem gríðarlegt magn sjaldgæfra málma eru unnið úr jörðu. Samkvæmt því sem hann komst að, hefur námavinnslan valdið gríðarlegri mengun og eyðileggingu. Hættuleg efni, sum geislavirk, hafa komist út í umhverfið, eyðilagt ræktarlönd, mengað brunna og, að því er talið er, valdið því að fólk veiktist af krabbameini. Um 85% heimsframleiðslu á sjaldgæfum málmum er í Kína.

Vilja herða reglurnar

Þessi umfjöllun hefur orðið sænskum stjórnmálamönnum tilefni til að leggja til að reglur um vinnslu og notkun sjaldgæfra málma verði hertar. Og svo getur auðvitað aukin aðgangur að málmunum hér í Svíþjóð gagnast sænskum iðnaði.

En svo væri kannski ráð að endurvinna eitthvað af þessum mjög svo dýrmætu og mengandi málmum. Þannig mætti minnka mengun og sóun. Það er jú ekki til endalaust magn af gallíum eða vanadín í heiminum! 

Sem stendur er endurvinnsla á sjaldgæfum málmum nánast engin. Það eru til dæmis engir sjaldgæfir málmar endurunnir úr bílum sem farið er með í brotajárn hér í Svíþjóð. Eins og sænska ríkisútvarpið bendir á, er engin krafa í lögum um að málmarnir séu endurunnir. Og það er einfaldlega miklu ódýrara að kaupa þá frá Kína.