Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Tek hatt minn ofan fyrir Olgu Færseth“

Mynd: RÚV / RÚV

„Tek hatt minn ofan fyrir Olgu Færseth“

30.07.2019 - 21:50
Margrét Lára Viðarsdóttir skoraði þrennu er Valskonur unnu 5-1 sigur gegn Stjörnunni í úrvalsdeild kvenna í fótbolta í kvöld. Fyrsta mark hennar í leiknum var hennar 200. í efstu deild en aðeins einn leikmaður hefur skorað fleiri en Margrét.

Aðspurð um tilfinninguna sagði Margrét: „Hún er bara góð. Ég held ég hefði alltaf tekið því þegar ég var lítil stelpa að sparka í bolta ef einhver hefði sagt við mig að ég myndi skora 200 mörk í efstu deild,“

„Ég er bara gríðarlega stolt en fyrst og fremst þakklát fyrir góðu samherja mína í gegnum tíðina, bæði í ÍBV og svo hérna í Val til margra ára. Ég hefði aldrei getað náð þessum mörkum nema með hjálp góðra samherja.“ segir Margrét.

Olga Færseth er sú eina sem hefur skorað fleiri mörk en Margrét Lára í efstu deild. Olga skoraði 269 mörk í 217 leikjum á sínum tíma en Margrét hefur skorað 202 mörk í 137 leikjum. Margrét var spurð hvort það væri raunhæft markmið að ná meti Olgu.

„Nei, ég held ekki. Við leyfum drottningunni að eiga það. Hún var svona minn lærifaðir í þessu, frábær leikmaður. Ég tek hatt minn ofan fyrir Olgu Færseth allan daginn og ég ætla að gefa henni þetta met.“

„Hún er galdrakarl“

Dóra María Lárusdóttir hefur leikið fjölmarga leiki með Margréti Láru, bæði fyrir Val og íslenska landsliðið. Dóra segir Margréti vera draumaliðsfélaga.

„Hún er náttúrulega lygilegur leikmaður. Eins og þú segir önnur í sögunni til að skora þetta mörg mörk en samt er hún búin að spila í atvinnumennsku í tíu ár. Þessi tölfræði er alveg fáranleg, eins með landsliðinu eða hvar sem hún hefur spilað. Hún er náttúrulega galdrakarl og draumaliðsfélagi.“

Ummæli Margrétar Láru má sjá í spilaranum að ofan en ummæli Dóru Maríu eru að neðan.

Mynd: RÚV / RÚV