Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Tarzan var fastagestur á Siglufirði

Mynd: RÚV / RÚV

Tarzan var fastagestur á Siglufirði

12.01.2020 - 12:10

Höfundar

Siglufjörður var um tíma ekki bara þungamiðja síldveiða á Íslandi heldur einnig uppspretta vinsælla myndasagna í íslenskum þýðingum. Siglufjarðarprentsmiðja gaf til að mynda út Súpermann, Köngulóarmanninn, Gög og Gokke – og ekki má gleyma Tarzan.

Á blómaskeiði Siglufjarðar á fjórða og fimmta áratugnum, þegar bærinn var höfuðborg síldarinnar á Íslandi, bjuggu þar um 3.100 manns og þegar landlegur voru margfaldaðist sú tala.

Meðfram síldarævintýrinu þreifst margvísleg starfsemi á Siglufirði, eða afleidd störf eins og það heitir í dag. Þar voru veitingastaðir og bíó og helstu samkomustaðirnir voru Hótel Höfn, Nýja bíó og Alþýðuhúsið. Það spruttu upp búðir með matvæli, byggingarvörur, sælgæti, rúmföt, klukkur og hatta. Það var líka blómlegur prentiðnaður á Siglufirði og bæjarblöðin sem urðu til í gegnum tíðina skiptu tugum.

Blómleg myndasagnaútgáfa

Fólki lá mikið á hjarta á Siglufirði og til að prenta öll blöðin sem komu út þar þurfti prentsmiðju. Siglufjarðarprent var mjög öflugt og sinnti margvíslegri bókaútgáfu. En menn minnast líka prentsmiðjunnar fyrir teiknimyndablöðin sem hún gaf út. Sumir sögðu að Tarzan væri frá Siglufirði.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Jón Sæmundur Sigurjónsson fyrrverandi alþingismaður og sonur Sigurjóns Sæmundssonar prentsmiðjustjóra.

„Hún var með Súpermann, Köngulóarmanninn, Gög og Gokke og Tarzan. Tarzan var fastagestur í Siglufjarðarprentsmiðju,“ segir Jón Sæmundur Sigurjónsson fyrrverandi alþingismaður og sonur Sigurjóns Sæmundssonar prentsmiðjustjóra. „Fyrsta upplagið af bókunum kom 1935 eða 36. Þær voru endurprentaðar í mismunandi útgáfum en þrisvar sinnum, allt heila upplagið. Síðan komu þessi myndablöð frá 1970-80 og fram undir 1990.“

Það var allt á Siglufirði

Blaðaútgáfan ein og sér er vitaskuld menningarlegt fyrirbæri segir Illugi Gunnarsson fyrrverandi ráðherra. Hann er fæddur á Siglufirði og móðir hans vann um tíma í prentsmiðjunni. „Siglufjarðarprentsmiðja er alveg einstakt fyrirbæri og auðvitað hjálpaði það til. Ég efast um að menn hefðu staðið í allri þessari blaðaútgáfu ef ekki hefði verið prentsmiðja. Ég man eftir að hafa komið inn í þessa prentsmiðju í gamla daga,“ segir Illugi. „Það er alveg stórmerkilegt að lengst norður við nyrsta haf skuli hafa verið prentsmiðja, í þessu litla samfélagi. En það er eins og ég segi: Það var allt á Siglufirði. Það vantaði ekkert.“

Ný þáttaröð í umsjón Egils Helgasonar þar sem saga Siglufjarðar er rakin. Hér fyrir ofan má sjá brot úr öðrum þætti, sem er á dagskrá RÚV sunnudag 12. janúar klukkan 20.05. Í þættinum er fjallað um hinar miklu síldarverksmiðjur sem risu í bænum og aðkomufólkið sem dreif að þrátt fyrir afleitar samgöngur. Einnig er sagt frá blómlegri blaðaútgáfu og síldarstúlkum og síldarrómantík í bæ sem sumum þóttum býsna skítugur og illa þefjandi. Að lokum segir frá séra Bjarna Þorsteinssyni, tónskáldinu ráðríka sem stjórnaði Siglufirði á hinum mikla uppgangstíma.

Tengdar fréttir

Menningarefni

Skækjur, landshornafólk og ruslaralýður í síldinni