Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Tárast enn yfir lokaatriðinu

Mynd: RÚV / RÚV

Tárast enn yfir lokaatriðinu

05.10.2019 - 12:27

Höfundar

Dansmyndin Flashdance frá árinu 1983 hafði djúp áhrif á Elmu Lísu Gunnarsdóttur leikkonu þegar hún sá hana fyrst tíu ára gömul. Líkt og Alex, aðalpersóna myndarinnar, þráði Elma að verða dansari með legghlífar og dilla sér við synþapopp.

Myndin breyttist þó svolítið við annað áhorf fyrir leikkonunni og hún áttaði sig á atriðum í sögunni sem hún hafði ekki gefið mikinn gaum sem barn. „Strax í byrjun myndarinnar kemur fram að hún vinnur fyrir sér sem strippari á kvöldin. Mér fannst það mjög miður,“ segir leikkonan og fullyrðir að myndin sé karllæg á margan hátt og barn síns tíma. „Dansatriðin eru samt ótrúlega flott, tónlistin geggjuð og leikurinn mjög góður,“ segir hún. 

Alex er leikin af Jennifer Beals sem var aðeins 17 ára þegar myndin er gerð. Á móti henni leikur Michael Nouri sem er næstum 20 árum eldri. „Það er allt saman mjög ósannfærandi í dag,“ segir Elma en bætir við að þrátt fyrir allt sé gaman að horfa á hana og sum atriði standist þrátt fyrir allt tímans tönn.

„Hún er sjónrænt flott, vel leikin og leikstýrð. Það er ótrúlega gaman að sjá hvað dansarnir eru flottir, þeir eru eiginlega komnir hringinn.“ Mestu gæsahúðina fær Elma Lísa svo, líkt og þegar hún sá hana fyrst tíu ára, í lokaatriðinu. „Ég fæ enn tár í augun,“ segir hún.

Kvikmyndin Flashdance verður sýnd á RÚV í kvöld. Hún er hluti af sýningaröð dansmynda á RÚV sem nefnist Dansást. Þar eru sýndar danskvikmyndir sem eru í sérstöku eftirlæti hjá þjóðinni. Hópur kvikmyndaáhugamanna tekur þátt í verkefninu en einn úr þeim hópi ræðir hverja mynd.

 

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Bíóást: Bill Murray stelur senunni

Kvikmyndir

Bíóást: Blóð í svarthvítu er súkkulaðisýróp

Kvikmyndir

Bíóást: Vakti strax sterk viðbrögð hjá mér