Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Tárast alltaf yfir fegurðinni í Bíldudal

Mynd: Ruv mynd / Ruv mynd

Tárast alltaf yfir fegurðinni í Bíldudal

26.10.2019 - 09:37

Höfundar

„Ég vil meina að þetta sé miðjarðarhafsbær norðursins,“ segir myndlistarkonan Harpa Árnadóttir um Bíldudal, þangað sem hún á ættir að rekja. Á sýningunni Djúpalogn í Hverfisgalleríi sýnir Harpa málverk, bókverk og teikningar en öll eru verkin innblásin af andblæ Arnarfjarðar. Myndlistarkonan notar jafnvel hafkalk úr firðinum til að vinna verkin.

„Fjöllin eru svo há þarna og það verður oft einhver ótrúlegur litur á hafinu við Bíldudal og víðar í Arnarfirði,“ segir Harpa í viðtali í Víðsjá á Rás 1, en hún var vör við þennan sérstaka lit í lítilli vatnslitamynd eftir Ásgrím Jónsson sem hékk uppi húsinu sem amma hennar og afi áttu á sínum tíma. Harpa fékk myndina eftir Ásgrím lánaða og er hún hluti af sýningu hennar í Hverfisgallerí. 

„Ég er svo heppin að eiga fullt af góðu ættfólki þarna fyrir vestan sem gerir að verkum að ég get fengið lánaða vinnuaðstöðu . Kalli frændi opnar vinnuskúrinn sinn og svona og ég get bara opnað dyrnar, horft út á hafið, séð hvali í firðinum og hlustað á æðarkollurnar. Það er svo stórkostlegt. Ég fer eiginlega hjá mér að hugsa um það hvað ég er óendanlega ljónheppin.“ 

Mynd með færslu
 Mynd: Ruv mynd
Harpa fær lánaða vatnslitamynd Ásgríms Jónssonar til að hafa með á sýningunni.

Að mála fjörðinn með firðinum.

Einn móðurbróðir Hörpu, Jörundur Garðarson, á fyrirtækið Hafkalk sem framleiðir fæðubótarefni á Bíldudal en þetta efni notar listakonan í verk sín rétt eins og annan lit.

„Ég fékk fyrstu dolluna hjá honum fyrir mörgum árum, en það var svo algjör opinberun og uppgötvun að sjá að hafkalkið, sem unnið er úr kalkþörungum, virkaði vel inn í verkin mín. Þetta er náttúrulega bara eins hreint úr sjónum og hugsast getur og það væri eignlega hægt að leyfa einhverjum litlum börnum að sleikja málverkin mín, þeim myndi nú ekki verða meint af því,“ segir Harpa og hlær. 

„Mér fannst þetta bara svo mjúkur grár litur og mér fannst líka eitthvað heillandi við að taka náttúrulegt efni sem kemur beint úr firðinum, af hafsbotni og hefur orðið til á löngum tíma, mala það niður og nota í málverkin mín. Nú er maður að mála málverk á 21. öldinni og gæti alveg spurt sig til hvers, heimurinn er jú fullur af málverkum, en hvers vegna þá ekki að mála fjörðinn með firðinum? “

Sýningin Djúpalogn er í Hverfisgalleríi og nánari upplýsingar um hana má finna hér.

Mynd með færslu
 Mynd: Ruv mynd
Ásamt málverkum sýnir Harpa teikningar af hafi og fjöllum og bókverk á sýningunni.