Tarantino streitist á móti breyttum tímum

Mynd: Once Upon a Time in Hollywood / Once Upon a Time in Hollywood

Tarantino streitist á móti breyttum tímum

28.08.2019 - 14:36

Höfundar

„Tímarnir eru að breytast og Tarantino virðist meðtaka það en hálfstreitast á móti og er Once Upon a Time vitnisburður um það,“ segir kvikmyndarýnir Tengivagnsins um níundu kvikmynd leikstjórans sem gerist í Hollywood ársins 1969.

Marta Sigríður Pétursdóttir skrifar:

Einu sinni var í Hollywood er nýjasta og mögulega síðasta eða næstsíðasta kvikmynd leikstjórans Quentins Tarantino. Það er að segja ef hann stendur við það að gera ekki fleiri en tíu myndir eins og hann hefur lýst yfir opinberlega. Once Upon a Time in Hollywood hefur verið beðið með mikili eftivæntingu og myndin virðist ekki hafa svikið væntingar hörðustu aðdáenda Tarantinos. Gagnrýnendur hafa almennt verið hrifnir þó svo að lofið sé alls ekki einróma, Einu sinni var í Hollywood er ýmist talin vera meistaraverk og ótvíræður vitnisburður um snilligáfu Quentins Tarantino, eða leiðingjörn og eftirlátssöm endurtekning á gömlum stefum, illa ígrunduð nostalgía og tímaskekkja sem fær orku sínu úr hinum sögufrægu og hryllilegu morðum Manson-fjölskyldunnar. Margir telja þetta vera ójafna mynd þar sem hinir ólíku þræðir frásagnarinnar vefast ekki nægilega vel saman, sumir þættir myndarinnar þykja betri en aðrir og sumar persónur þykja fá meira vægi en aðrar.

Það fer ekkert á milli mála að Tarantino er og hefur verið stórveldi í kvikmyndagerð á heimsmælikvarða, virtur, hylltur, dýrkaður og dáður innan jafnt sem utan Hollywood en ofbeldið í kvikmyndum hans, og sérstaklega gagnvart konum, hafa gert hann að umdeildum leikstjóra sem og ólínulegt frásagnarformið sem einkennir höfundarverk hans. Eitthvað virðist þó vera tekið að grafa undan valdastöðu Tarantinos, tímarnir eru að breytast, og má segja að þessi nýjasta kvikmynd hans sé vitnisburður um þá staðreynd. Hún er eins konar hugvekja um veröld sem var og samband nútíðar og fortíðar. Einnig fjallar hún um óljós mörk raunveruleika og skáldskapar, um hina mystísku Hollywood og bílaborgina Los Angeles.

epa07794546 (L-R) US director Quentin Tarantino gestures during a press conference promoting his movie 'Once Upon a Time... in Hollywood' in Tokyo, Japan, 26 August 2019. The movie opens in Japanese cinemas on 30 August.  EPA-EFE/FRANCK ROBICHON
 Mynd: EPA
Tarantino við kynningu á myndinni í Tokyo.

Ýmis hneykslismál sem tengst hafa Tarantino síðustu misseri og gagnrýni á meðhöndlun hans á sögufrægum persónum hafa óneitanlega varpað skugga á velgengi kvikmyndarinnar. Þar ber fyrst ber að nefna áralangt samstarf og vináttu Tarantinos og Harveys Weinstein, kvikmyndaframleiðandans sem var, þökk sé #metoo-byltingunni, afhjúpaður fyrir fjöldamörg kynferðisbrot og áralanga valdamisnotkun í Hollywood og víðar. Einnig vakti viðtal við leikkonuna Umu Thurman sem birtist í New York Times á síðasta ári mikla athygli þar sem hún upplýsti ekki bara um þær árásir sem hún varð fyrir af hendi Weinsteins heldur einnig að Tarantino hefði neytt hana til þess að aka ótraustum bíl við tökur á fyrstu Kill Bill myndinni sem endaði með árekstri. Thurman slasaðist töluvert og samband hennar við Tarantino, sem stóð þá þegar höllum fæti vegna vináttu hans við Weinstein, varð aldrei samt aftur.

Tarantino hélt nefnilega áfram að vinna með Weinstein þrátt fyrir að hafa verið upplýstur um þær árásir og áreitni sem bæði Uma Thurman og leikkonan Mira Sorvino, fyrrverandi kærasta Tarantinos, urðu fyrir. Auk þessa alls lýsir Thurman því í viðtalinu hvernig Tarantino hrækti framan í hana og vafði stálkeðju utan um háls hennar við undirbúning á tökum fyrir Kill Bill. Ofan á skandalinn í kringum Harvey Weinstein bættist svo við upptaka frá þætti Howards Stern frá 2003 þar sem Tarantino heldur því fram að Polanski hafi ekki nauðgað þrettán ára barni heldur hafi það verið kynlíf með hennar samþykki. Tarantino hefur þó stigið fram og beðist afsökunar á ummælum sínum og einnig fyrir að hafa ekki gert meira til þess að standa uppi í hárinu á Weinstein.

Þannig að þrátt fyrir að Once Upon a Time in Hollywood gerist í fortíðinni þá er þetta kvikmynd sem nauðsynlegt er að staðsetja innan samfélagsumræðu samtímans, sérstaklega eftir #metoo-byltinguna og hvernig Tarantino hefur flækst inn í umræðuna.

Svo við víkjum aftur að kvikmyndinni þá er sögusviðið að sjálfsögðu Hollywood árið 1969 og mikið af þeim persónum og atburðum eiga sér stað í myndinni byggjast á raunverulegu fólki og sögulegum atburðum en einna helst Manson fjölskyldunni, Sharon Tate og Roman Polanski. Söguhetjur þessa ævintýris eru þó skáldaðar. Aðalpersónurnar eru vinirnir Rick Dalton, sem Leonardo DiCaprio leikur, og Cliff Booth, sem Brad Pitt leikur. Rick Dalton hefur átt nokkurri velgengni að fagna í Hollywood sem leikari, fyrst og fremst í vestrum, en þegar sagan hefst hefur frægðarsólin tekið að hníga, hann öfundar nágranna sína, hjónin Sharon Tate og Roman Polanski, sem standa fyrir nýbylgju kvikmyndagerðar í Hollywood sem hann er ekki hluti af og hann hefur einnig megnustu óbeit á hippum.

Rick er auk þess drykkfeldur en hann reiðir sig á hjálp vinar síns Cliff með flesta hluti, þar á meðal akstur þar sem Rick hefur misst ökuleyfið eftir að hafa verið gripinn við ölvunarakstur. Rick berst í bökkum við að halda í fallvalta Hollywood-fræðgðina í skúrkahlutverkum í útþynntum vestra-sjónvarpsþáttum og tekst á við áfengisvandann. Samhliða raunum Ricks og útréttingum Cliffs á bílnum hans er svo Sharon Tate sem birtist okkur sem léttlynd og áhyggjulaus ung kona sem er fylgt eftir í sínu daglega lífi. Margot Robbie leikur Tate en Polanski rétt bregður þó fyrir í myndinni þó svo að hans saga sé eins konar undirtónn í myndinni.

Mynd með færslu
 Mynd: Once Upon a Time in Hollywood
Cliff og Rick skynja að Hollywood er að breytast og óttast dvínandi mikilvægi sitt.

Í kvikmyndinni eru eins og áður sagði nokkrar sögur samhliða og rödd sögumanns, sem tilheyrir Kurt Russell, brúar bilið þegar við á og minnir áhorfendur á að við erum að horfa á skáldskap, bíómynd en ekki raunveruleikann. Once Upon a Time in Hollywood er á einhvern hátt mjög rómantísk mynd, óður og ástarljóð til Hollywood og sjöunda áratugarins og söguhetjurnar, sérstaklega Cliff eru dæmigerðar Tarantino-hetjur. Cliff er svellkaldur einfari sem býr einn bak við bílabíó í hjólhýsi með hundinum sínum. Það er þó möguleiki að hann hafi myrt eiginkonu sína af ásettum hug. Áhorfendur fá aldrei að vita það en í stuttri klippu sést konan hans kvarta og kveina á báti. Við fáum tækifæri til þess að geta í eyðurnar.

Cliff fær líka kynferðislegt tilboð frá ungri konu sem reynist tilheyra Manson fjölskyldunni þegar hann pikkar hana upp og skutlar heim á Spahn búgarðinn. Cliff biður ungu konuna um að sýna sér skilríki til þess að sanna að hún hafi náð 18 ára aldri, þegar hún getur ekki sýnt honum nein skilríki afþakkar Cliff gylliboðið pent. Ef Cliff er karlmennskuklisjan uppmáluð þá er Rick taugaveiklaður og óöruggur alkóhólisti sem þrífst á samþykki og aðdáun annarra og brestur sífellt í grát. Það er önnur táknræn sena þegar átta ára gamalt stúlkubarn sem leikur á móti honum ræðir við hann á setti og er í raun vitsmunalegur jafnoki hans, ef ekki ofjarl. Önnur vísun í #metoo-byltinguna og kynjapólitíkina sem Tarantino hefur ekki farið varhluta af. Rick fær leiðsögn hjá lítilli stúlku, ekki öfugt. Karlmennskuímyndin er óstöðug, jafnvel leikin eða þrífst bara í heimi fantasíunnar.

Mynd með færslu
 Mynd: Once Upon a Time in Hollywood
Mike Moh í hlutverki Bruce Lee.

Í einni af umdeildari senum myndarinnar sést hrokafullur Bruce Lee, leikinn af Mike Moh, skora Cliff á hólm í slag. Þrátt fyrir að þetta eigi að vera eins konar draumórar Cliffs, eru mörk raunveruleika og skáldskapar margræð hér. Dóttir Bruce Lee, Shannon, hefur gagnrýnt harðlega hvernig persóna föður hennar birtist í myndinni sem nokkurs konar skrípaútgáfa af sjálfum sér. Þetta er misheppnuð írónía og í raun bara endurvinnsla á rasískum staðalímyndunum fortíðarinnar sem á ekki lengur heima í kvikmyndagerð 21. aldarinnar. Að mínu mati þá var þessi sena óþægileg að horfa á, sérstaklega þar sem Cliff stendur uppi sem sigurvegari, skiptir ekki máli hvort þetta sé fantasía eða ekki. Þetta er jafn raunveruleg sena á hvíta tjaldinu og allar hinar, það er ekki lengur hægt að sópa gagnrýni eins og þessari undir teppið.

Að sama skapi hefur Tarantino verið gagnrýndur fyrir það hversu fáar línur Margot Robbie í hlutverki Sharon Tate fær í myndinni. Ásetningur Tarantinos var að hans eigin sögn var að setja hana fram sem tákn hins hversdagslega í sturluðum heimi myndarinnar og taka hana úr hlutverki fórnarlambsins. Tarantino heldur hér áfram að leika sér með sögulegar staðreyndir líkt og hann gerði í Inglorious Basterds frá árinu 2009 þar sem Hitler og nasistarnir hlutu makleg málagjöld. Persónulega var ég hrifin af því hvernig hann setur Sharon Tate fram í myndinni en spurningin er af hverju hann þurfi að nota hana til þess að knýja áfram frásögnina um Cliff og Rick.

Mynd með færslu
 Mynd:
Tarantino þykir sjálfhverfur eins og Rick Dalton sem Leonardo Di Caprio leikur.

Once Upon a Time in Hollywood er töluvert löng eða 160 mínútur, og í henni úir og grúir af alls kyns tilvísunum í afþreyingarefni sjöunda áratugarins, vestra, sjónarspefni, efnismenningu tímabilsins og arkitektúr borgarinnar. Eins skipar Manson fjölskyldan stóran sess í sögunni, en Cliff heimsækir þau á Sphan-búgarðinn í útjaðri Los Angeles sem hafði áður gegnt hlutverki sviðsmyndar í vestraþáttum. Þannig nær Einu sinni var hæstu hæðum sem sjálfhverf hugleiðing Hollywood um sjálfa sig, eða hugmyndir Tarantino um Hollywood og vald höfundarins öllu heldur. Tarantino er sjálfhverfur kvikmyndagerðarmaður sem hefur ef til vill aldrei mætt mikilli gagnrýni þar til nú og hann hefur átt erfitt með að taka þeirri gagnrýni sem hann hefur verið að fá á sig. Tímarnir eru að breytast og Tarantino virðist meðtaka það en hálf streitast á móti og er Once Upon a Time vitnisburður um það.

Mér varð einnig hugsað til meistaraverka Davids Lynch, Mulholland Drive og Inland Empire, þegar ég horfði á myndina, kvikmyndir sem einnig fjalla um staðinn og staðleysuna Hollywood, og flöktandi sjálfsmynd leikarans, en kafa mun dýpra niður í undirmeðvitundina.

Besta sena Once Upon a Time in Hollywood er því þegar Sharon Tate fer í bíó og nýtur þess að horfa á sjálfa sig á hvíta tjaldinu og upplifa viðbrögð áhorfenda við leik sínum. Augnabliksfriður fyrir Tate sem er að eilífu greypt í ímyndunarafl almennings og sögu Manson-fjölskyldunnar sem fórnarlamb eins hrottalegasta morðmáls 20. aldarinnar.

Tengdar fréttir

Kvikmyndir

Engir símar á setti hjá Tarantino

Kvikmyndir

Fyrsta stiklan úr nýju Tarantino-myndinni

Kvikmyndir

Tarantino: „Ein mesta eftirsjá lífs míns“

Kvikmyndir

Bíóást: „Svalasta mynd allra tíma“