Tár og bros á Heimsleikum fatlaðra

Mynd: Elín Sveinsdóttir / Elín Sveinsdóttir

Tár og bros á Heimsleikum fatlaðra

24.04.2019 - 14:57
Heimsleikar fatlaðra voru haldnir í Abú Dabí og Dubai í mars. Meðal þátttakenda voru 38 Íslendingar sem kepptu í 10 greinum. Katrín Guðrún og Steinunn Ása úr þáttunum Með okkar augum fylgdust með leikunum.

Heimsleikarnir, Special Olympics, eru fjölmennasta íþróttamót sem haldið hefur verið á árinu. Þangað komu þátttakendur frá yfir 190 þjóðlöndum og kepptu í fjölmörgum íþróttagreinum. Leikarnir voru fyrst haldnir í Chicago 1968. Þær Katrín Guðrún og Steinunn Ása, sem eru meðal þáttastjórnenda Með okkar augum, sóttu leikana í ár og sögðu að umgjörð þeirra væri ævintýraleg. Þær tóku íþróttafólk, aðstandendur og þjálfara tali og hvöttu keppendur áfram á milli þess sem þær skelltu sér í keilu og á ströndina. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Hjalti Geir Guðmundsson sundkappi með móður sinni.

Einn þeirra sem unnu til verðlauna á mótinu er sundkappinn Hjalti Geir Guðmundsson sem fékk bæði gull- og silfurverðlaun. Móðir hans, Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir, sagði Katrínu og Steinunni að hún væri að springa úr stolti yfir árangrinum og stundin hefði verið tilfinningaþrungin. „Þegar við komum inn í þessa stóru höll og sáum strákinn okkar sem var að fara að synda þá urðum við lítil í okkur og fórum að gráta.“

Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra var einnig á leikunum. „Ég er búinn að fylgjast með fótbolta, golfi, fimleikum og fleiri greinum og mér finnst algjörlega magnað að sjá alla umgjörðina og íslenska hópinn,“ sagði Ásmundur Einar. „Starfið sem íþróttasamband fatlaðra er að vinna er ómetanlegt. Skilaboðin sem ég tek með mér heim er að gera enn betur, standa enn betur við bakið á þessu starfi og vonandi leiðir það til þess að við verðum með enn fleiri keppendur að fjórum árum liðnum.“

Fyrri þátturinn um ævintýri Steinunnar Ásu og Katrínar Guðrúna á Heimsleikunum verður sýndur á sumardaginn fyrsta kl 19.40.

Tengdar fréttir

Íþróttir

Góð frammistaða Íslendinga á Special Olympics

Íþróttir

Heimsleikar fatlaðra settir í dag

Innlent

Með okkar augum tilnefnd til verðlauna ÖBÍ

Rjómaosta og salsa ídýfa