Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Tapaði atkvæðagreiðslu um Brexit-áætlunina

22.10.2019 - 18:50
epa07940914 A handout picture made available by the UK Parliament shows British Prime Minister Boris Johnson speaking in the House of Commons in London, Britain, 22 October 2019. Johnson is urging MPs to back his Brexit deal in a final bid to get the UK to leave the EU by the end of the month.  EPA-EFE/JESSICA TAYLOR / UK PARLIAMENT / HANDOUT MANDATORY CREDIT: UK PARLIAMENT / JESSICA TAYLOR - Images must not be altered in any way. HANDOUT EDITORIAL USE ONLY/NO SALES
 Mynd: EPA-EFE - UK PARLIAMENT
Breska þingið hafnaði í kvöld áætlun bresku ríkisstjórnarinnar um hvernig fjallað yrði um nýjan samning við Evrópusambandið.

Áætlunin sem Boris Johnson forsætisráðherra lagði fyrir þingið gekk út á að samningurinn yrði afgreiddur á næstu þremur dögum, í tæka tíð fyrir útgöngu Bretlands úr ESB fyrir mánaðamót.

Johnson hefur róið öllum árum að því að Bretland gangi úr Evrópusambandinu fyrir 31. október, annað hvort með samningi eða án. Í síðustu viku tókst honum að ganga frá nýjum útgöngusamningi við ESB. Þau áform eru nú í uppnámi.

Flýta undirbúningi fyrir samningslaust Brexit

„Ég verð að lýsa vonbrigðum mínum með að neðri málstofan hafi kosið að tefja enn frekar þá áætlun sem hefði tryggt útgöngu Bretlands þann 31. október,“ sagði Johnson í þingsal þegar niðurstaða atkvæðagreiðslunnar var ljós. „Nú sjáum við fram á óvissu. Evrópusambandið verður nú að gera upp hug sinn um beiðni þingsins um frestun.“

„Ríkisstjórnin verður að gera það eina ábyrga í stöðunni og flýta undirbúningi fyrir samningslausa útgöngu,“ sagði Johnson.

Jeremy Corbyn, leiðtogi stjórnarandstöðunnar og Verkamannaflokksins, sagði Johnson vera valdur að eigin óförum. Hann beindi orðum sínum til forsætisráðherrans: „Þú verður að vinna með okkur að sanngjarnri tímaáætlun.“

Michel Barnier, aðalsamningamaður ESB í Brexit, vildi ekki tjá sig um atkvæðagreiðsluna þegar breska ríkisútvarpið leitaði eftir því.

Nigel Dodds, leiðtogi írska sambandsflokksins á Norður-Írlandi í breska þinginu, var ánægður með niðurstöðuna. Flokkur hans ákvað að greiða atkvæði gegn tímaáætluninni. Það sé mikilvægt að fá meiri tíma til að ræða samninginn. „Sérstaklega með hliðsjón af áhrifum samningsins á Norður-Írland,“ sagði Dodds.

Vilja þó ræða um samninginn

Fyrr í kvöld greiddi þingið svo um það hvort rætt yrði áfram um samninginn. Í þeirri atkvæðagreiðslu var meirihluti fyrir því að halda áfram að fjalla um útgöngusamninginn.

Johnson hefur þegar óskað eftir lengri fresti til ESB fyrir Bretland til að ná samkomulagi um útgönguna, með töluverðum trega.