„Ég veit ekki hvað þú ert að tala um með því að redda. En maður sér vesalinga úti í kanti sem ekki geta neitt, þá verður maður eitthvað að gera, gamli sveitamaðurinn. Þetta er svona fín kvoða, ég held þið komist allavega að pumpunni á bensínstöðinni,“ sagði Guðjón Indriðason, grjótharður Tálknfirðingur af gamla skólanum, sem kom malarfólkinu til bjargar. „En það fylgir þessu engin ábyrgð,“ bætti hann við kíminn. Þá fylgdi það sögunni að flestir viðgerðarmenn úr nágrenninu væru í Þýskalandi í mótorhjólaferð, en Edda Sif Pálsdóttir hitti einmitt nokkra þeirra í Borgarnesi í gær.
Sigríður og föruneytið stefna nú á Brjánslæk þar sem þau ætla að reyna að ná ferjunni Baldri. Tálknfirðingurinn fussaði hins vegar og sveijaði þegar hann heyrði minnst á það. „Vitið þið hvaða ár er? Það er 2000 og bráðum 20. Það er alveg út úr korti að vera að fara um borð í ferju þegar okkur vantar veg. Við viljum fá veg! Vegurinn milil Tálknafjarðar og Ísafjarðar var byggður 1958 og er óbreyttur. Ég er ansi hræddur að það myndi fara um lattalepjandi liðið í 101 ef það þyrfti að keyra á malarvegi uppi í Breiðholt.“
Teymin fimm eru enn á flakki landshorna á milli í beinni útsendingu á RÚV 2 og vefnum. Allt samfélagið er undir í útsendingunni; atvinnulíf, félagslíf, mannlíf og reynt að sýna sem allra mest af því sem drífur á daga landans á einum sólarhring. Landinn lítur við á vinnustöðum, fer út í búð, inn í eldhús hjá fólki, í fjós og víðar. Að auki fá áhorfendur að skyggnast á bak við tjöldin í sjálfri útsendingunni sem lýkur í kvöld klukkan 20:15.