Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Talin íkveikjuhætta af ölvuðu hinsegin fólki

Mynd með færslu
 Mynd:

Talin íkveikjuhætta af ölvuðu hinsegin fólki

14.08.2019 - 16:00

Höfundar

Á morgun verður haldið í djammsögugöngu þar sem sögur af skemmtanalífi hinsegin fólks verða rifjaðar upp. „Þeir sem vonast eftir upptalningu, þurrum staðreyndum og tölulegum fróðleik ættu að forðast þessa göngu. Þetta verður nefnilega bara stuð,“ segir Árni Grétar Jóhannsson leiðsögumaður.

Hinsegin dagar standa nú yfir í Reykjavík með tilheyrandi skemmtidagskrá og hýrleika allt fram á laugardag þegar gleðigangan sjálf verður gengin. Í ár er því fagnað að 20 ár eru síðan hátíðin var fyrst haldin á Ingólfstorgi og því er hún veglegri en nokkru sinni fyrr. Einn af fjölmörgum viðburðum sem boðið er upp á er svokölluð Djammsöguganga, en annað kvöld reima draugar fortíðar á sig ballskónna og sögulegir staðir í miðbænum heimsóttir. Staðirnir eiga það sameiginlegt að geyma leyndardóma, gleðskap og dans hinsegin fólks í gegnum tíðina. Árni Grétar Jóhannsson er leiðsögumaður göngunnar en gengið verður fylktu liði frá Hlemmi og endað á Borginni.

Árni er sjálfur leiðsögumenntaður en segir að þrátt fyrir að ekki hafi verið boðið upp á kúrs í djammsögu hafi námið veitt sér góðan grunn. „Svo hef ég verið viðloðandi félags- og skemmtanalíf hinsegin fólks á Íslandi ansi lengi, því ég hef ekki bara stundað það stíft að skemmta mér heldur hef ég haft það að atvinnu,“ segir leiðsögumaðurinn sem hefur í gegnum tíðina rekið helstu skemmtistaði hinsegin fólks í Reykjavík, Barböru heitna og Kiki.

Aldrei að vita hvort tár falli

Hugmyndin að göngunni kviknaði í spjalli við formann Hinsegin daga og byrjaði sem tilraunaverkefni fyrir ári síðan en þótti takast svo ljómandi vel að ákveðið var að útvíkka hugmyndina. „Við skelltum í tvo túra, annan á ensku og hinn á íslensku og studdumst við ábendingar og tillögur okkar frábæru gesta sem gengu með okkur í göngunni til að bæta hana enn frekar.“ Þrátt fyrir að baráttan hafi verið blóðug og sagan geymi mikla sorg verður reynt að einblína á skemmtilegu hliðar hennar. „Gleðin verður í fyrirrúmi í sögugöngunni sjálfri þó okkar sýnileika- og baráttusaga hafi byrjað í sorg á mafíuknæpu í New York. Það er þó aldrei að vita hvort tár muni falla í einhverjum trúnóum seinna um kvöldið.“

Leyniorð og dulnefni í sögum sem sagðar voru undir rós

Það er hollt að rifja upp sögurnar, að sögn Árna Grétars, og læra af þeim. Hann reynir að hvetja þátttakendur til að deila sínum eigin sögum og minningum svo sagnabankinn stækki í hvert skipti. „Margar af okkar sögum hafa verið þaggaðar niður, hvíslaðar og sagðar undir rós með ýmsum leyniorðum og dulnefnum. Þetta kvöld munu allskonar sögur flakka en þó aldrei of nærgöngular eða meiðandi heldur með það að leiðarljósi að hægt sé að skoða tíðarandann og læra um hann.“

Heimildirnar sem stuðst er við í göngunni koma víða að. Í 30 ára afmælisriti Samtakanna '78 skrásetti Hilmar Hildar- Magnússon stóran hluta af djammsögunni og Árni Grétar styðst að miklu leyti við hana. „Hún kortleggur til dæmis fyrir okkur hvaða staðir hafa sprottið upp og niður aftur í gegnum tíðina. Svo lauma ég inn einni og einni sögu sem ég hef sjáfur heyrt.“ Árni verður þó ekki eini umsjónamaður sögustundarinnar því hann hefur kallað til liðs við sig nokkra vel valda sérfræðinga um sögu hinsegin djammsins til að glæða frásögnina lífi. „Reyndar eru þetta það miklir snillingar að ég mun líklega sitja sjálfur á fremsta borði dáleiddur að hlusta á þau.“

Mynd með færslu
 Mynd: Árni Grétar Jóhansson
Árni Grétar í síðustu göngu kortleggur miðbæinn

Lögreglan gat ekki látið hinsegin skemmtistað í friði

Aðspurður segir hann ómögulegt að velja einhverja eina eftirlætissögu. „Ég get samt rifjað upp hvað kerfið getur verið bráðsúrt og fyndið í sínum fordómum en eftir að Laugavegur 22 skellti upp "GAY" merki fyrir framan húsið reyndi lögreglustjórinn ítrekað að loka staðnum með sífellt auknum brunavarnakröfum. Máli sínu til stuðnings var skýrslum veifað sem staðhæfðu að hinsegin fólk undir áhrifum ætti svo erfitt með að hemja ástríður sínar að það væri stórkostleg íkveikjuhætta af því,“ segir Árni og hlær.

Eins og rússneskt kaupfélag

Einn af þeim skemmtistöðum sem hinsegin fólk stundaði í gegnum tíðina og rifjaðir verða upp í göngunni er Rauða myllan en hún var helsta heimili dragsenunnar á sínum tíma. „Moulin Rouge tók við eftir að hinsegin senunni var skúrað út af Laugavegi 22 í fyrsta skipti. Hún opnar dyr sínar niðri við Hlemm þar sem áður höfðu verið staðir sem voru mikið sóttir af okkar hópi.“ Þarna tróð upp þekkt fólk úr hinsegin samfélaginu á borð við Pál Óskar, Maríus og Eurovision-Reyni. „Þó ég sé of ungur til að hafa náð að sækja þennan stað þá var stemningin víst alveg mögnuð og sýningarnar svo geggjaðar að þær náðu athygli fjölmiðla sem var alls ekki sjálfgefið þá.“  Eins og vill gerast með tímanum þá dalaði aðsóknin og staðurinn of stór til að standa undir rekstrinum. „Ef ég man rétt lýsti einhver dragdrottningin þessu svo í afmælisritinu að staðurinn hefði virkað eins og rússneskt kaupfélag á krepputímum með hillurnar galtómar,“ rifjar Árni upp kíminn. „Vonandi verður einhver í sögugöngunni sem upplifði þennan tíma og getur sagt okkur meira skemmtilegt.“

En hverju eiga göngugarpar von á annað kvöld? „Það sem ég held að muni allavega koma mest á óvart er hve veglega verður veitt, hve afslappað og óformlegt þetta er og hvað það verður auðvelt að kynnast fólki. Í fyrra þegar gengið var endaði hálfur hópurinn samna í siglingunni en hinn helmingurinn borðaði kvöldverð, drakk meira, kynntist og sagði sögur. Það fer ekki nokkur maður heim eftir svona göngu.“

Það er tuttugu ára aldurstakmark í gönguna en Árni segir að þó það sé ekki krafa sé ekki verra að fólk sé hresst og félagslynt að eðlisfari. Veigar sem dreypt verður á í göngunni eru innifaldar í miðaverðinu en Árni bendir þó á að ef einhverjir vilji halda sér þurrum en séu samt forvitinir um gönguna séu þau velkomin líka.

Hinsegin djammsögugangan hefst á Hlemmi kl. 18 og endar á Borginni þar sem áhugasamir geta snætt saman síðbúinn kvöldverð.

Tengdar fréttir

Höfuðborgarsvæðið

Klapparstígur í regnbogans litum

Leiklist

„Þú þarft að eigna þér sviðið mitt“

Jafnréttismál

Hringdu klukku Kauphallarinnar í fyrirpartíi

Menningarefni

Tíu hýrir hátíðarviðburðir