Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Taldi rétt að vekja athygli Evrópuráðsþingsins á málinu

18.12.2019 - 13:27
Mynd með færslu
 Mynd: Rúv - Samsett mynd
„Ég velti því fyrir mér, er það rétt að manneskja sem á að huga að mannréttindum mínum, kalli mig þjóf þegar ég er saklaus,“ segir Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, um Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur, þingmann Pírata.

Af þeim sökum hafi hann viljað vekja athygli Evrópuráðsþingsins á úrskurði siðanefndar Alþingis í máli Þórhildar Sunnu, en hún er formaður laga- og mannréttindanefndar þingsins.

Ásmundur sendi því forseta Evrópuráðsþingsins erindi þann 9. desember þar sem vakin var athygli á því að Þórhildur Sunna hefði gerst brotleg við siðareglur alþingismanna, fyrst þingmanna hér á landi. Evrópuráðsþingið ætti að íhuga aðgerðir gagnvart henni. 

Þórhildur Sunna var sögð hafa gerst brotleg við siðareglur alþingismanna, vegna ummæla hennar í Silfrinu á síðasta ári um að uppi væri rökstuddur grunur um að Ásmundur hefði dregið sér fé og brotið reglur um akstursgreiðslur en ekki væri verið að bregðast við og setja á fót rannsókn á þessum efnum. 

Velti fyrir sér hvort Sjálfstæðisflokkurinn væri í hefndarhug

Í viðtali við fréttastofu í dag velti Þórhildur Sunna fyrir sér hvað búi að baki bréfaskrifum Ásmundar og tímasetningu þeirra. „Vegna þess að ekki sendir hann þetta bréf þegar að úrskurðurinn fellur heldur núna, rétt fyrir jól,“ segir hún. „Ég spyr mig hvort að þetta sé annað hvort að Ásmundur Friðriksson sé bara með mig á heilanum eða þá að Sjálfstæðisflokkurinn vill hefna sig fyrir að ég hafi komið af stað frumkvæðisathugun á hæfi Kristjáns Þórs Júlíussonar.“

Ásmundur segir, í samtali við fréttastofu, að hann hafi lengi ætlað að senda Evrópuráðsþinginu erindið. Nú hafi svo orðið að því. 

Segir bréfið vera viðbjóð

Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, fór hörðum orðum um Ásmund og bréfsendingu hans í pistil á Facebook-síðu sinni í dag: „Þetta bréf hans er algjör viðbjóður, ofan í allt það sem á undan hefur gengið þá dirfist hann til þess að leitast eftir refsingu á vegum Evrópuráðsþingsins gagnvart Sunnu,“ segir þar. 

Í kjölfar „sjálfsagðrar“ beiðnar um rannsókn á aksturskostnaði þingmanna hafi komið í ljós að Ásmundur innheimti langmestan kostnað vegna „starfa“ sinna. Í kjölfarið á því hafi hann svo viðurkennt að sumar af þessum greiðslum væru vafasamar og endurgreitt tæpar hátt í tvö hundruð þúsund krónur vegna þess. 

Ásmundur hafi misnotað stöðu sína og aðgang að almannafé í gegnum starfskostnað. „Samkvæmt lögum á þingmaður einungis að geta fengið endurgreitt vegna kostnaðar sem hlýst vegna starfa. Að flakka fram og til baka á kosningafundi sem frambjóðandi eru ekki þingstörf,“ segir hann. „Heimsóknir hans út um allt kjördæmið eru ekkert annað en atkvæðaveiðar sem kosta himinháar upphæðir í akstursgreiðslur og skila engu í þingstörfin.“

Í kjölfar þess að forsætisnefnd hafi hafnað beiðni um rannsókn á akstursgreiðslum Ásmundar hafi hann hafið „þessa vegferð gegn Sunnu og mér, að kvarta undan beiðni okkar um rannsókn vegna játninga hans.“ Í kjölfarið hafi Sunna verið sögð sek um brot á siðareglum þingmanna. Niðurstaða nefndarinnar hafi verið „augljóslega fáránleg miðað við gögn málsins.“ „Undir engum kringumstæðum þá getur það talist brot á siðareglum að segja satt.“ 

Pistillinn ekki svaraverður

Ásmundur segir pistil Björns Levís ekki svaraverðan. Björn beri ítrekað á hann sakir. Forsætisnefnd hafi komist að þeirri niðurstöðu að hann hafi ekki brotið af sér, ekki hafi verið neitt saknæmt við hans keyrslu eða reikninga. Björn Leví haldi því samt fram að það hafi verið framin lögbrot innan þingsins. Með því sé hann í raun einnig að bera sakir á starfsfólk Alþingis og ásaki það um að taka þátt í lögbrotum með sér. Honum þyki það miður. 

„Ég fór bara víðar. Það fer ekki á milli mála að ég hef ferðast mjög mikið. Ég hef verið duglegur að sinna mínum kjósendum,“ segir Ásmundur. Hann segist gera ráð fyrir því, þegar þessar ásakanir halda áfram, að siðanefndin taki á því. „Hann bara leggur mig í einelti, eins og reyndar þingflokkurinn allur.“ 

Forsætisnefnd Alþingis taldi ekki ástæðu til að rannsaka ferðakostnað Ásmundar. Nefndin taldi ekki að hann hefði brotið siðareglur þingmanna og sagði að hvorki hefðu borist upplýsingar né gögn sem vektu rökstuddan grun um refsiverða háttsemi sem kæra ætti til lögreglu.