Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Takmörk fyrir því hvað viðræðuhlé er langt

15.06.2013 - 20:42
Mynd með færslu
 Mynd:
Hléð sem íslensk stjórnvöld hafa ákveðið að gera á aðildarviðræðum við Evrópusambandið felur í sér tímamörk, segir stækkunarstjóri ESB. Hann segir sambandið bæði hafa getu og vilja til að ljúka viðræðunum.

Á blaðamannafundi Gunnars Braga Sveinssonar utanríkisráðherra og Stefans Fule, stækkunarstjóra Evrópusambandsins í Brussel á fimmtudaginn, kom sá síðarnefndi því skýrt á framfæri að þótt Evrópusambandið virti ákvörðun íslendinga um að gera hlé á viðræðunum, væru tímatakmörk á því að hefja þær aftur. 

Stefan Fule stækkunarstjóri Evrópusambandsins segir það vera í þágu allra að ákvörðunin um aðild bíði ekki lengi.  Hann segir ákvörðunina um aðildarviðræður standa óhaggaða, þótt ekki sé ljóst hversu lengi.

Undir það tekur Michael Leigh, sérfræðingur í stækkunarmálum, sem áður vann hjá Evrópusambandinu í tengslum við umsókn Íslands: „Ákveði íslensk stjórnvöld að hefa viðræður á ný, er ég viss um að aðildarríkin 27, sem verða brátt 28, með inngöngu Króatíu, verði reiðubúin að setjast aftur að samningaborðinu.“

Á blaðamannafundinum á fimmtudag virtist stækkunarstjórinn vera að svara orðum Ólafs Ragnars Grímssonar, sem hann lét falla við setningu Alþingis, um að Evrópusambandið virtist skorta vilja og getu til að ljúka aðildarviðræðum við Ísland á næstu árum. Fule sagði afstöðu Evrópusambandsins vera að hag þess og Íslands væri best borgið með nánum tengslum: „Okkur þykir aðildarferlið besti vettvangur þeirra tengsla. Við höfum bæði viljann og getuna til að fylgja því eftir.“

Leigh tekur undir þetta og bendir á nauðsyn þess að ljúka viðræðunum og bera þær undir almenning: „Og þegar þjóðin veit hvað kemur útúr aðildarviðræðunum getur hún tekið upplýsta ákvörðun um málið.“