Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Takkasímarnir sækja í sig veðrið á ný

15.12.2019 - 20:43
Mynd: Wikimedia / Wikimedia
Aldurshópurinn 18 til 24 ára er sá hópur þar sem fæstir eiga snallsíma samkvæmt nýrri norrænni könnun. Ungt fólk í nágrannalöndum kýs í auknum mæli minna áreiti og salan á gamla góða takkasímanum hefur aukist.

Í fyrra áttu 92 prósent norrænna ungmenna á aldrinum 18 til 24 ára snjallsíma. Á þessu ári hefur hefur þeim fækkað í 87 prósent.

Samkvæmt niðurstöðum könnunar Deloitte sem náði yfir Svíþjóð, Noreg, Finnland og Danmörku fjölgar þeim sem eiga snjallsíma jafnt og þétt með hækkandi aldri og aldurshópurinn 35 til 44 ára trónir á toppnum. Í þeim hópi eiga 96 prósent snjallsíma. Þeim fækkar svo aftur eftir því sem árin færast yfir og af þeim sem eru 65 til 75 ára eiga 89 prósent snjallsíma. 

Mynd með færslu

Yngsti hópurinn finnur einnig hvað mest fyrir aukaverkunum vegna mikils skjátíma og er það talin ein af ástæðunum fyrir því að notkun fer minnkandi. Svo virðist vera sem það sé að koma upp kynslóð sem kjósi meira hliðrænt og minna starfænt, segir í frétt Politiken.

Staðan á Íslandi önnur

Bragi Þór Antoníusson, markaðsstjóri ELKO, segist ekki finna fyrir þessari þróun hér á landi: „Ef eitthvað er þá er þessi aldurshópur að auka við sig í snjallsímanum heldur en öfugt“. Hann telur ólíklegt að takkasímarnir séu að detta í tísku, þó sé aldrei að vita. Sú breyting sem hafi átt sé stað á þessu ári sé að heildarsala farsíma á íslenskum markaði hafi dregist saman um 20 prósent, sem skýrist af því að símarnir séu orðnir betri og endast lengur. 

Hjá ELKO voru takkasímar 17 prósent allra seldra farsíma í fyrra en 14 prósent í ár. Hjá Símanum voru takkasímar 9 prósent af heildarsölu farsíma í fyrra. Í ár hefur salan hins vegar aukist og er hún um 11 prósent.

Fréttastofa fór á stúfana og ræddi við ungmenni sem fæst könnuðust við það að jafnaldrar þeirra fengju sér takkasíma. 

Úlla Árdal
Fréttastofa RÚV