Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

„Takk fyrir að eignast mig mamma“

Mynd: RÚV / RÚV

„Takk fyrir að eignast mig mamma“

16.11.2015 - 16:39
Sundkonan Kristín Þorsteinsdóttir vakti mikla athygli í síðustu viku eftir frægðarför hennar til Ítalíu á EM í sundi einstaklinga með downs heilkenni. Þar setti hún heimsmet tvisvar og Evrópumet 8 sinnum. RÚV hitti Kristínu sem var verðlaunuð fyrir bestu frammistöðuna á mótinu. Hún segir að æfingin skapi meistarann.

Einstaklingar með downs heilkenni keppa í fötlunarflokki S16 sem ekki er keppt í á Ólympíumóti fatlaðra og eingöngu keppendur úr þessum fötlunarflokki öttu kappi á Evrópumótinu. Alls voru þetta 107 einstaklingar frá 20 löndum og stóð Kristín af sér heilmikla samkeppni í sínum greinum. Til að mynda hafði hún betur gegn um 30 öðrum keppendum þegar hún vann gullið í 100 metra skriðsundi en alls kom hún heim með fimm gullverðlaun, ein silfuverðlaun og ein bronsverðlaun.

Langt umfram væntingar

„Við fórum af stað með einhverjar væntingar en ekki um alla þessa titla.“ segir Sigríður Hreinsdóttir, móðir Kristínar. Kristín sjálf er ekki í neinum vafa um af hverju hún sé svona góð sundkona.

„Af því að ég er dugleg að æfa. Æfingin skapar meistarann.“ segir Kristín. Auk heimsmetanna tveggja setti Kristín Evrópumet í 6 greinum en hún tvíbætti metin í tveimur greinanna.

Æfir í 16 metra sundlaug

Kristín býr á Ísafirði þar sem hún æfir í aðeins 16 metra langri sundlaug. „Hún er lítil, það er frekar þröngt. Það er erfitt að synda í svona lítilli sundlaug.“ segir Kristín sem æfir sund þrisvar í viku í klukkutíma í senn.

„Ef við miðum okkur við krakka hér, þá eru þau alla daga vikunnar í tveggja tíma æfingum þannig að þetta er eiginlega alveg ótrúlegt.“ segir Sigríður.

Stóri bróðir fór í þjálfarahlutverkið

Þjálfari Kristínar, Svala Siv Sigurgeirsdóttir, er barnshafandi og gat því ekki farið með henni til Ítalíu. Svo fór því að Bragi, bróðir Kristínar tók þjálfarahlutverkið að sér á Evrópumótinu. „Hún er heppin að hafa stóra bróður sem er gamall sundmaður og þjálfari frá S.H. Hann býr úti í Danmörku og kom þaðan.“ segir Sigríður sem þakkar ómetanlegan stuðning við keppnisferðina.

„Það er alveg ómetanlegur stuðningur sem við höfum fengið. Það var stofnuð stuðningsmannagrúppa utan um hana því þetta var orðið það stórt verkefni fyrir okkur litlu fjölskylduna. Öll skipulagning og svo er ótrúlega mikill peningur sem fer í þetta.“

„Takk fyrir að eignast mig mamma“

Meðal þess sem Sigríði er efst í huga eftir mótið eru viðbrögð dóttur sinnar eftir að hún sló fyrra heimsmetið. „Þá kom hún upp úr lauginni og þegar hún áttaði sig á því að hún hefði slegið heimsmet var svolítil geðshræring í gangi. Hún knúsaði mömmu sína og sagði; takk fyrir að eignast mig. Það var ljúf viðurkenning.“

Viðtalið við þær mæðgur má sjá í spilaranum hér að ofan.

Tengdar fréttir

Íþróttir

Kristín setti aftur heimsmet á Ítalíu

Íþróttir

Frábær árangur Kristínar á EM á Ítalíu