Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Tafir á því að nýr Herjólfur sigli til Eyja

18.07.2019 - 19:57
Mynd: Þór Ægisson / RÚV
Tafir verða á því að nýr Herjólfur hefji siglingar milli lands og Eyja. Breyta þarf höfninni í Vestmannaeyjum til að nýr Herjólfur geti hafið siglingar. Í gær kom í ljós að skipið getur ekki lagst að bryggju án þess að eiga á hættu að skemmast.

Það eigi að skýrast á næstu dögum hvenær hægt verði að hefja siglingar. Samkvæmt Vegagerðinni gæti það tekið viku, jafnvel vikur. Það er sem sagt ekki víst að nýi herjólfur flytji þjóðhátíðargesti til Eyja.

Það þarf að gera heilmiklar breytingar á viðleguhöfnini í Vestmannaeyjum, því eins og er rekst skrokkur Herjólfs utan í hana á flóði. Það verður byrjað á bráðabirgðaaðgerðum en svo þarf að setja upp varnarpúða og þeir þurfa að standa um einum og hálfum metra hærra en bryggjukanturinn. 

Herjólfur kom til landsins í síðasta mánuði og upphaflega stóð til að hefja siglingar um síðustu mánaðamót. Undanfarna daga hefur hann verið í prufusiglingum. Laga þarf ýmislegt smálegt en það er smámál í samanburði við þann vanda sem blasir við í Vestmannaeyjahöfn.