Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Tævan: Fyrsta konan á forsetastóli

16.01.2016 - 05:48
epa05104149 Chairwoman of the pro-independence Democratic Progressive Party (DPP) and presidential candidate Tsai Ing-wen casts her vote in a school in New Taipei City, Taiwan, 16 January 2016. Several polls conducted last week suggest that Tsai is at
Tsai Ing-wen á kjörstað Mynd: EPA
epaselect epa05103362 Supporters of Kuomintang party presidential candidate Eric Chu cheer during his final rally in New Taipei City, Taiwan, 15 January 2016. Taiwan will hold its presidential election on 16 January. China is closely watching Taiwan&#039
Stuðningsfólk Erics Chu, frambjóðanda Kuomintang, hyllir sinn mann Mynd: EPA
epa05104190 Taiwanese queue up at a Taoist temple to cast their votes in the presidential election in Taipei, Taiwan, 16 January 2016. Three candidates are running in the race as President Ma Ying-jeou, from the ruling Chinese Nationalist Party KMT, will
Á kjörstað í taóista-hofi Mynd: EPA
Forseta- og þingkosningar fara fram á Tævan í dag. Skoðanakannanir benda til þess að lögfræðingurinn Tsai Ing-wen, formaður Lýðræðislega framfaraflokksins, verði kosin forseti með umtalsverðum yfirburðum, fyrst kvenna þar í landi. Þá er talið líklegt að Lýðræðislegi framfaraflokkurinn og samstarfsflokkar hans endurheimti meirihluta sinn á þinginu af gömlu valdablokkinni þar sem Kuomintang-flokkurinn er langstærstur.

Þar með verður einnig endir bundinn á átta ára ferli vaxandi samskipta og samvinnu við Kína, sem núverandi Tævansforseti og formaður Kuomintang, Ma Jing-jeú, hefur beitt sér fyrir. Tsai Ing-wen er mótfallin nánari samvinnu við Kína, og það eru kjósendur Lýðræðislega framfaraflokksins líka.

Ekki er þó talið líklegt að hún grípi til róttækra aðgerða á borð við að lýsa yfir sjálfstæði Tævans, sem Kínverjar hafa ætíð gert tilkall til, heldur muni hún freista þess að halda ástandinu að mestu óbreyttu frá því sem nú er, en draga þó heldur úr samskiptunum, sem er í takt við vilja mikils meirihluta stuðningsfólks hennar og flokks hennar. Hún hefur þó farið afar varlega í allar yfirlýsingar um aðskilnað og sjálfstæði í kosningabaráttunni að þessu sinni.

Ma Jing-jeú átti fund með Xi Jinping, Kínaforseta í Singapúr í nóvember síðastliðnum. Það var fyrsti fundur leiðtoga þessara landa síðan liðsmenn Sjang-Kæ-Sjeks flúðu til Tævans undan Maó Tse-tung og mynduðu þar útlagastjórn 1947, Tilraunir Mas til að nálgast og friðþægja Kínverja hafa farið misjafnlega í fólk á Tævan, og nú virðist svo komið að meirihlutanum þyki hann og flokkur hans hafa gengið of langt í þeim efnum. Svar þeirra er einfalt: Þeir kjósa Tsai og Lýðræðislega framfaraflokkinn, sem talað hafa fyrir sjálfstæðu Tævan.

Stjórnvöld jafnt í Bejing og Washington eru tortryggin í garð Tsai Ing-wei. Þegar hún bauð sig fram til forsetaembættisins fyrir fjórum árum kölluðu talsmenn Kínastjórnar hana óróasegg og bandarískur stjórnarerindreki vildi meina að hún væri ógn við friðinn í Austur-Asíu. 

18,8 milljónir eru á kjörskrá. Kosningaþátttaka hefur að jafnaði verið í kringum 70% síðan fyrstu lýðræðislegu kosningarnar fóru fram á Tævan árið 1996.

Menntakona sem sneri sér að stjórnmálum

Tsai Ing-wen er 59 ára gömul. Hún nam lög í Tævan-háskóla, tók meistaragráðu í lögum frá Cornell-háskóla í Bandaríkjunum og lauk doktorsnámi við London School of Economics. Hún gegndi prófessorsstöðu við nokkra háskóla á Tævan eftir að hún sneri aftur til landsins 1984, og 1993 var hún skipuð í ráðgjafastöðu hjá hinu opinbera fyrsta sinni, á vegum ríkisstjórnar Kuomintang-flokksins.

Hún tók meðal annars þátt í því að leggja grunninn að svokallaðri tveggja-landa stefnu ásamt þáverandi forseta, Lee Teng-hui. Lee var forseti í umboði Kuomintang, en hallur undir aðskilnað Tævans og Kína. Það er þvert á grunngildi Kuomintang, sem heldur fast í hugmyndina um eitt Kína, rétt eins og stjórnvöld í Bejing, þótt menn greini á um hvoru megin sundsins réttmæt yfirvöld hins eina Kína sitji. Í stað slagorðsins Eitt Kína boðaði Lee Eitt Kína, eitt Tævan, stefnu, sem Tsai hefur fylgt allar götur síðan.

Hún tók að sér að gegna embætti ráðherra meginlandsmála, sem stýrir stefnumótun og framkvæmd samskipta við Alþýðulýðveldið Kína í ríkisstjórn Chen Shui-bians, fyrsta forseta landsins sem ekki kom úr röðum Kuomintang. Hún var síðan varaforsætisráðherra í skammlífu ráðuneyti Su Tseng-chans 2006-7 en var skákað út af eftirmanni hans, Chang Chun-hsiung.

Tsai Ing-wen var svo kjörin formaður flokksins 2008, en sagði af sér formennsku eftir að hún tapaði forsetakosningunum 2012. Tveimur árum síðar, 2014, komst hún aftur til æðstu metorða innan flokksins, og nú stefnir sum sé allt í að hún setjist í forsetastól.

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV