Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Tæplega fjögur þúsund íbúðir í byggingu

23.05.2019 - 15:38
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson
Hátt í fjögur þúsund íbúðir eru í byggingu á Íslandi og þar að auki hafa verið gefin út tæplega tvö þúsund byggingarleyfi. Þetta má lesa út úr nýjum gögnum Þjóðskrár sem voru birt í dag.

Í þessum gagnagrunni er hægt að sjá fjölda íbúða í byggingu, fjölda útgefinna byggingarleyfa, tilbúnar íbúðir og samsetningu íbúðarhúsnæðis, brotið niður eftir landsvæðum og sveitarfélögum. Alls eru tæplega 139 þúsund tilbúnar íbúðir á landinu öllu. Hafin er bygging tæplega fjögur þúsund íbúða til viðbótar, en um síðustu áramót voru um þrjú þúsund íbúðir í byggingu. Þar að auki hafa verið gefin út tæplega tvö þúsund byggingarleyfi, en framkvæmdir ekki hafnar. 

Þegar litið er til einstakra landsvæða kemur kannski fáum á óvart að flestar íbúðir eru í byggingu á höfuðborgarsvæðinu. Þar eru 2.470 íbúðir í byggingu og hafa verið gefin út 1.230 leyfi til viðbótar. Á Reykjanesi eru 753 íbúðir ýmist í byggingu eða komið byggingarleyfi. Fæstar íbúðir eru í byggingu á Norðurlandi vestra, eða 44 talsins. 

Í Reykjavík hafa verið gefin út byggingarleyfi eða framkvæmdir hafnar við samtals 2.301 íbúð. Af öðrum sveitarfélögum eða byggðakjörnum er Njarðvík í öðru sæti á lista Þjóðskrár en þar hafa verið gefin út leyfi eða framkvæmdir hafnar við 574 íbúðir. Þar á eftir er Kópavogur, því næst Garðabær og Mosfellsbær. 

Í frétt á vef Þjóðskrár kemur fram að stofnunin hafi um árabil talið fjölda íbúða, en samræmdari skráning á nýju húsnæði geri það að verkum að gögnin séu marktækari. Þau eru uppfærð mánaðarlega. „Hafa þarf í huga að fasteignir sem ekki hafa verið skráðar í fasteignaskrá af byggingarfulltrúa sveitarfélaga eru ekki að finna í þessum gögnum,“ segir á vef Þjóðskrár.  

jonthk's picture
Jón Þór Kristjánsson
Fréttastofa RÚV