Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Tækni lúsifers gæti valdið byltingu í fiskeldi

30.09.2019 - 17:00
fiskeldi · Innlent · tækni
Mynd: Efla / Efla
Aðferðir sem hinn ófrýnilegi djúpsjávarfiskur lúsifer beitir til að afla sér fæðu gætu orðið að veruleika í hvítfiskeldi í sjó. Tilraun hér við land hefst á næstunni. Hún felst í því að koma fyrir ljósi í búri fullu af þorski neðansjávar sem lokkar átu til fisksins.

Ljósið laðar fæðuna að

Heiðurinn að uppfinningunni á Norðmaðurinn Vidar Saue. Hann hefur stofnað fyrirtæki hér á landi, Ocean EcoFarm. Það er í samvinnu við verkfræðistofuna Eflu og Hafrannsóknastofnun. Efla kynnti verkefnið á sjávarútvegssýningunni í Laugardalshöll í síðustu viku. Hafsteinn Helgason, sviðsstjóri viðskiptaþróunar hjá Eflu, segir að á yfir 20 metra dýpi sé nánast kolniðamyrkur. Þorskurinn og fleiri fiskar haldi sig þar og nærri botni. Þar nær fiskurinn í æti. Þar eru smágerðar fisktegundirog krabbadýr svo sem ljósdepla, rauðáta og ljósáta sem eru mjög smáar fisktegundir. Vegna smæðarinnar hefur ekki verið mögulegt að veiða þessa fiska.

„Þess vegna hafa menn verið að hugleiða það hvernig þeir geta náð ætinu að fiskinum. Það er norskur vísindamaður sem hefur einkaleyfi á þeirri tækni að búa til ljós á þess að um sé að ræða raforku frá rafhlöðu eða snúru frá landi. Það gerist með efnahvörfum sem býr til ljós og hægt er að hafa mismunandi bylgjulengd á því ljósi og þar með ákveðið nokkurn veginn hvaða fisktegundir það eru sem synda inn í búrið þar sem  í þessu tilfelli þorskurinn væri. Þannig að sú aðgerð í fiskeldi að gefa stöðugt fóður og kaupa fóður, sem er mjög hár kostnaðarliður, dettur niður í þessu tilfelli,“ segir Hafsteinn.

Mynd með færslu
Svona virkar ljósfiskeldið

Gæti verið búbót fyrir sjávarþorp

Hugmyndin er sem sagt að koma fyrir þorskseiðum í búri eða lokaðri kví sem slakað er niður á ákveðið dýpi. Ljósið lokkar að fæðu fyrir seiðin sem nærast og stækka í búrinu. Hafsteinn segir að þetta geti verið áhugaverð viðbót við þær hefðbundnu veiðar sem nú eru stundaðar.

„Það sem er líka áhugavert í þessu sambandi að þetta gæti gætt aftur lífi í mörg sjávarþorp sem hafa orðið illa úti vegna færslu á kvóta.“

Það er stefnt að því að hrinda af stað tilraunaverkefni á næstunni sem mun standa yfir í tvö til þrjú ár. Talað er um að 500 milljónir tonna af átu séu í sjónum kringum Ísland. Um ein milljón tonna af fiski er veidd í íslenskri lögsögu. Tilraunaverkefnið verður unnið í samráði við Hafrannsóknastofnun. Reynt verður að svara því hve kvíarnar eigi að vera stórar og hve djúpt á að vera með þær. Vonast er til að svör fáist við ýmsu öðru eins og til dæmis mengun af völdum eldisins.
Tækni sem hefur verið þróuð við olíuvinnslu í Norður-Atlantshafi mun nýtast við eldið. Meðal annars vegna þess að nær allt verður sjálfvirkt. Mögulegt verður að fylgjast nákvæmlega með vexti og heilsufari fisksins og í raun hvenær að að slátra.

Mynd með færslu
Tæknin verður í fyrirrúmi Mynd: Efla

Algjörlega ný hugmynd

Gert er ráð fyrir að seiðaeldisstöð sem Hafrannsóknastofnun rekur leggi til seiði til verkefnisins. Ef þetta verður að veruleika er gert ráð fyrir að komið verði upp eldisstöðvum víðar en nú er. Hugmyndin að lokka fæðu inn í fiskeldisbúr er algjörlega ný. Hafsteinn segir að hægt verið að nýta þessa tækni víða um heim.

„Það má kannski líkja þessari tækni við þá tækni sem breytti mjög heiminum fyrir ekki mjög löngu síðan þegar Microsoft kom með Windows umhverfið sem allir nota í dag. Við gætum með þessu móti hugsanlega framleitt verðmæt og holl prótein fyrir mannkynið út um alla jörð,“ segir Hafsteinn.

Mynd með færslu
 Mynd: Arnar Páll Hauksson
Hafsteinn Helgason

Hugmyndin sótt til Lúsifers

Ocean EcoFarm hefur sótt um leyfi til að hefja tilraunaverkefnið og búist er við að svar berist á næstu vikum. Stefnt er að því að  undirbúningur hefjist í haust og að seiðum verði sleppt í búrin fyrri hluta sumars á næsta ári.

-En hvers konar fyrirbrigði er ljósið sem á að lokka fæðuna inn í búrin?

 „Þegar maður horfir á það þá er það mjög skærblátt í flestum tilvikum. Þetta er ljós sem verður til við efnahvörf í sjónum. Hann er mjög efnaríkur. Mikið af málmum, magnesíum og öðrum málmum. Fyrir tilstuðlan efnahvarfa myndast þetta ljós.“

Það er í raun ekki vitað hvað veldur því að átan laðast að ljósinu.

„Ef viðtökum mynd af svona ljósgjafa neðansjávar þá er þetta eins og versta mýflugnager fyrir framan bílrúðu. Það er alveg krökkt.“

- En er það tilfellið að hugmyndin er komin frá frekar ófrýnilegum fiski, Lúsifer?

„Já, það má eiginlega segja það. Lúsifer er að leysa hér ýmis mál. Hann er að beita nákvæmlega þessu. Hann kveikir á sínum lampa ef svo má segja fyrir framan kjaftinn á sér þegar hann þarf á æti að halda. Þá kemur ætið að og hann gleypir það,“ segir Hafsteinn.
 

 

arnarph's picture
Arnar Páll Hauksson
Fréttastofa RÚV